149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða minnir mig sífellt meira á atriði Monty Python um dauða páfagaukinn. Þrátt fyrir að öllum sé ljóst að þessi páfagaukur, þriðji orkupakkinn, sé steindauður, þá halda menn áfram að reyna að sannfæra okkur um að hann sé sprelllifandi. En hvað um það.

Hv. þingmaður fullyrðir að Belgíumálið snúist um að sjálfstæði orkustofnunarinnar þar hafi ekki verið tryggt til fulls. Já, það má kannski til sanns vegar færa, en sjálfstæði stofnunarinnar til að gera hvað? Til þess að geta beitt valdi sínu. Takmörkunin á sjálfstæði orkustofnunarinnar í Belgíu snerist um það að stjórnvöld vildu hafa eitthvað um þessi mál að segja, tengingu milli landa og framkvæmdir í raforkumálum og höfðu ekki veitt orkustofnuninni nægjanlegt sjálfstæði til að fara með vald fyrir hönd Evrópusambandsins. Sjálfstæði stofnunarinnar er kannski ekki rétta orðið. En hér ætlar íslenska ríkisstjórnin að tryggja það að íslenska orkustofnunin, landsreglarinn, fái nægt vald til að ráðskast með hlutina hér án afskipta íslenskra stjórnvalda og kjósenda.

En í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði um landgrunnsmálið þá ítreka ég að það liggur fyrir að landgrunnið er undir í þessu orkupakkamáli svoleiðis að það er ekki hægt að benda einfaldlega á yfirráð yfir landgrunninu og vísa í að þá gildi ekki orkupakkinn. Það er búið að koma fram að orkupakkinn og áhrif hans ná til landgrunnsins.

Og að lokum spyr ég hv. þingmann: Þekkir hann sögu sæstrengsins á Kýpur? Kýpur er eyja eins og Ísland og nú er verið að tengja Kýpur við Grikkland um Krít. Það voru fjárfestar, einkafyrirtæki, sem söfnuðu saman peningum til að ráðast í þá framkvæmd, tilkynntu ACER um áhuga sinn og þá tók ACER við og hefur síðan verið að fylgjast með því að stjórnvöld á Kýpur og Grikklandi setji ekki steina (Forseti hringir.) í götu þessa verkefnis.