149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvar öðru sinni. Enn og aftur: Við erum að tala um epli og appelsínur í þessu samhengi, dauðir páfagaukur eða lifandi. Það er tvennt ólíkt. Flutningur raforku um fyrirliggjandi flutningsnet, sem er það sem þriðji orkupakkinn snýst um og lögsaga þessara landsreglara nær til, það er einfaldlega bara hvernig viðskiptaskilmálum er háttað, hvernig tengingarskilmálum er háttað um það flutningsnet sem fyrir hendi er. Orkustofnun Belgíu eða orkustofnun Íslands hefur engar sjálfstæðar heimildir til að ráðast í tengingar við orkukerfi sem landið er ekki þegar tengt. Orkustofnun hér hefur engar heimildir, mun ekki öðlast neinar heimildir, til að samþykkja neitt annað en hvaða viðskiptaskilmálar gildi um þær tengingar, séu þær fyrir hendi. Hún tekur ekki ákvörðun um það hvort tengingu skuli komið á eða ekki.

Ég hef ekki skoðað Kýpurmálið sérstaklega. En ég leyfi mér stórlega að efast mjög um þær valdheimildir sem skilgreindar eru í orkupakkanum sem ACER hefur um að segja. ACER hefur skýra lögsögu í einu tilviki og einu tilviki einvörðungu, þ.e. þegar landsreglarar viðkomandi landa geta ekki komið sér saman um þá skilmála sem gilda skulu í flutningunum þarna á milli. ACER getur ekki fyrirskipað tengingu. ACER getur ekki gripið inn í eða gripið fram fyrir hendur stjórnvalda í ákvörðuninni um tengingu. En ef landsreglari Kýpur og landsreglari Grikklands sem dæmi koma sér ekki saman um hvaða skilmálar skulu gilda þarna á milli þá getur ACER vissulega gripið inn í og sagt: Á grundvelli málsmeðferðarhefðar sem hér hefur myndast skulu skilmálarnir vera með tilteknum hætti, en hún hefur enga lögsögu til að taka ákvörðun um hvort af tengingu verður eða ekki.