149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði fyrr í dag, og reyndar hv. þm. Sigríður Á. Andersen einnig, og í gær hæstv. fjármálaráðherra, að við gætum beitt 102. gr. en það væri hins vegar þeirra mat að við þyrftum þess ekki. Þetta er athyglisvert og hefur ekki komið svona skýrt fram áður hjá þessum stjórnarliðum.

Málflutningur Miðflokksins hefur m.a. gengið út á að ekkert liggi á, að það sé skynsamlegt að nýta sér heimild í EES-samningnum og vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er sem sagt komið á hreint að þeir sem hafa haft efasemdir um innleiðingu þriðju tilskipunar Evrópusambandsins og vilja vísa málinu til EES-nefndarinnar eru á sama máli og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hv. þm. Sigríður Á. Andersen og hæstv. fjármálaráðherra. En mati ráðherra á nauðsyn þess er ég hins vegar ekki sammála.

Það er ánægjulegt að ráðherra staðfesti opinberlega að EES-samningurinn er ekki í uppnámi verði þetta gert. Það er þess vegna áhugavert að sjá æsinginn og flýtinn við að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum þar sem við ræðum hér breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun og í því samhengi breytt hlutverk Orkustofnunar. Ég vil leyfa mér að benda á að við erum að færa vald frá ráðherra til Orkustofnunar sem lýtur ekki lýðræðislegu valdi. Stofnun þessi mun m.a. fá, samkvæmt frumvarpinu, sektarheimildir en í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Orkustofnun getur lagt stjórnvaldssekt á aðila sem brýtur gegn 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 5. mgr. 8. gr., 1.–2. málslið 2. mgr. 9. gr., 12. gr. a, 2. mgr. 16. gr. og 17. gr. a. Orkustofnun getur jafnframt lagt stjórnvaldssektir á aðila sem sinna ekki kröfum um úrbætur samkvæmt 26. gr. a eða brjóta ítrekað gegn ákvæðum laga þessara.

Sektir samkvæmt 1. mgr. geta numið allt að 10 hundraðshlutum af veltu fyrirtækis.“

Bara þetta eitt og sér segir að ákvarðanir hinnar breyttu Orkustofnunar munu ekki aðeins geta leitt af sér stjórnskipulegt vandamál sem getur verið greinilega misskilningur heldur geta ákvarðanir Orkustofnunar hugsanlega haft áhrif á einstaklinga og lögaðila. Í þessu liggur vafinn. Það er alveg hugsanlegt að eitthvað í þessum lögum sé til bóta fyrir almenning. Það er hins vegar annað mál. Áhættan sem við erum að taka vegur engan veginn upp á móti ávinningnum. Ekkert ætti að standa í vegi fyrir því að við bættum íslensk lög til hagsbóta fyrir almenning. Við sem þingmenn megum hins vegar ekki taka óþarfa áhættu.

Hæstv. forseti. Hér kom fram í dag að lögfræði er ekki raunvísindi. Allt of oft takast menn á um túlkun laga. Þetta er m.a. gert fyrir dómstólum. Þeir sem takast á leggja yfirleitt hvor sinn skilninginn í túlkun laganna. Það er ekki fyrr en eftir uppkvaðningu dóms sem niðurstaðan liggur fyrir. Það er á okkar ábyrgð að gera sem mestan og bestan samning fyrir þjóðina. Við eigum að taka tillit til allra varnaðarorða og við eigum aldrei að gera neitt sem gæti orkað tvímælis í þeim efnum.

Ég er þeirrar skoðunar að tíminn til að spyrna við fótum sé núna. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum innleiða samningsákvæði sem skaðað gætu hagsmuni okkar. Það er fullyrt að án sæstrengs höfum við ekkert að óttast. Það er engu að síður líklegt að ef orkufyrirtæki myndi kæra samkeppnisforskot Landsvirkjunar til ACER yrði niðurstaðan sú að Landsvirkjun, sem nýtur yfirburðastöðu á markaði, yrði að skipta sér upp. Þetta er raunveruleikinn og við þessu verður að sporna.

Við höfum sjálf byggt upp okkar raforkukerfi á okkar eigin forsendum síðan við hófum framleiðslu á rafmagni snemma á síðustu öld. Við höfum ekki verið eftirbátar annarra landa í þeim efnum og við eigum nóg af orku. Þegar EES-samningurinn var gerður, 1992, var ekki mikið fjallað um orkumál en með innleiðingu á orkupökkunum sem á undan hafa verið samþykktir, orkupakka eitt og orkupakka tvö, var undanþágum um raforkumál kippt undan þannig að við byrjuðum þá að missa vald yfir orkumálum. Ég verð að segja alveg eins og er að ef ég hefði verið á Alþingi á þessum tíma hefði ég ekki samþykkt orkupakka eitt eða tvö.

Ég hef líka heyrt í umræðunni undanfarið vangaveltur um á hvaða ferðalagi við værum í þessum málum. Þegar lagt er af stað í ferðalag eru einhverjir viðkomustaðir á leiðinni og það má líkja þessu orkupakkamáli við ferðalag sem hefst á orkupakka eitt, svo tvö og svo áfram. En ég er nokkuð viss um að þjóðin og við — og ég — gerðum okkur ekki grein fyrir því að við værum að leggja af stað í þetta ferðalag og vissum þar af leiðandi ekki um neina ákvörðunarstaði eða yfirleitt að við værum á einhverju ferðalagi. Þar af leiðandi var nánast ekkert viðnám á þeim tíma þegar orkupakkar eitt og tvö voru til umræðu í þinginu. Mér hefur stundum dottið í hug og nefnt það líka í ræðum, sem er miklu minna mál en samt stórt mál fyrir fáa, innleiðing á gerð sem varð að lögum 2015 um endurmenntun atvinnubílstjóra. Þetta lak í gegnum þingið án þess að nokkur hreyfði andmælum og um það voru greidd atkvæði í þinginu. Ég held að fæstir þingmenn hafi gert sér grein fyrir hvað þeir voru að greiða atkvæði um. Með því að þetta varð að lögum urðu bílstjórar sem vilja hafa atvinnu af réttindum sínum að undirgangast námskeið sem kosta 100.000. Þetta eru fimm námskeið, 20.000 í hvert skipti, 100.000 kr. þurfa þeir að borga til að halda atvinnuskírteini sínu. Í innleiðingunni stóð hins vegar að þetta ætti ekki við um eyland. Það sama segi ég um þriðja orkupakkann, hann á ekki við um eyland. Ég hef verið að njósna um þessi námskeið meðal atvinnubílstjóra og þau eru orðin þannig að menn eru jafnvel hættir að sækja þau og þeir hafa ekki misst atvinnuleyfi sín bara vegna þess að, halda þeir, menn sjá hversu vitlaus þessi innleiðing er.

Þetta kom upp í hugann hjá mér núna vegna þess að við vitum í raun og veru ekkert hvernig þetta ferðalag sem við erum á fer. Við erum búin að samþykkja orkupakka eitt og orkupakka tvö og nú fer að öllum líkindum orkupakki þrjú í gegn á mánudaginn kemur. Orkupakki fjögur er kominn og menn eru farnir að lesa sér til í honum. Þar er m.a. verið að tala um, hef ég heyrt, að við getum ekki spornað við margumræddum sæstreng. Svo koma orkupakkar fimm og sex og við verðum bara að samþykkja þá af því að við samþykktum síðasta orkupakka o.s.frv.

Ég segi það sem oft hefur heyrst áður: Núna er lag að stoppa. Við eigum að nýta okkur 102. gr. EES-samningsins, senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og ganga algjörlega úr skugga um það sé fyrirvaralaust og verði landi og þjóð til góðs en ekki ills og að allur vafi verði tekinn af í þessu máli. Við megum ekki láta lítinn leka á annars góðum bát verða til þess að báturinn sökkvi.