149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:29]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég tek undir það að flestir þingmenn eru góðir og grandvarir og reyna að sinna sinni vinnu sem best þeir geta. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel að helsta ástæða þess að stór hluti þjóðarinnar er uggandi vegna þessa máls, eins og þingmaðurinn nefndi áðan, sé sú að röngum upplýsingum hefur verið haldið á lofti, ekki síst af þingmönnum Miðflokksins, ásamt fleirum. Það hefur ekki gert umfjöllun á Alþingi skilvirkari eða hjálpað neitt til í þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið.

Ég hef setið með þingmanninum á allmörgum fundum utanríkismálanefndar síðustu mánuði þar sem fjallað hefur verið um þetta mál. Mér finnst mjög merkilegt, miðað við þann tíma sem farið hefur í umræðuna, að þingmaðurinn haldi áfram að tala um hluti sem er löngu búið að ræða sem ég hélt að við hefðum komist að tiltölulega góðri sameiginlegri niðurstöðu um. Það er t.d. enn verið að tala um mögulegar skaðabætur og brot á fjórfrelsi og að senda eigi málið til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þrátt fyrir að þingmaðurinn bendi ekki á ástæður þess að það skuli gert. Hér er líka talað um að fyrirvararnir hafi ekki þjóðréttarlegt gildi.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Nú fórum við t.d. yfir gildi Vínarsáttmálans og gildi yfirlýsinga. Man þingmaðurinn eftir þeim fundi sem fram fór í síðustu viku varðandi þjóðréttarlegt gildi og annað?

Og annað: Man þingmaðurinn eftir að hafa lesið bréf, áréttingu Stefáns Más og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts frá 10. apríl 2019 (Forseti hringir.) og man hann hvað í því stendur?