149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður hafði hér uppi nokkur orð um rangar upplýsingar en nefndi engin dæmi um slíkar upplýsingar sem hefði verið haldið fram af okkur. Staðreyndin er sú, herra forseti, að þremur ríkisstjórnarflokkum og hávaðanum af stjórnarandstöðunni hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina um ágæti þessa máls. Þvert á móti er þjóðin uggandi. Að halda því fram að einn stjórnmálaflokkur hafi getað rótað með slíkum hætti upp í þjóðinni er fremur ótrúverðugt. (Gripið fram í.)

Ég rakti í ræðu minni ástæður þess af hverju fara eigi með þetta mál fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Ég nefndi í fyrsta lagi varúð. Ég nefndi í annan stað varkárni gagnvart stjórnarskrá. Ég nefndi í þriðja lagi aðgætni gagnvart hugsanlegum skaðabótafjárhæðum sem fallið geta á ríkissjóð. Það er auðvitað staðreynd, hvað sem hv. þingmaður segir um það efni, að sú hætta er fyrir hendi. Ég gat um tillitssemi og virðingu við þann stóra hluta þjóðarinnar sem er uggandi yfir þessari fyrirhuguðu innleiðingu og ég nefndi að í raun er enginn ágreiningur, þegar allt er skoðað, a.m.k. gagnvart æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins, um hvort þörf er á því að fara þessa leið. Þörfin er að sjálfsögðu augljós, herra forseti. Þörfin byggist á því að við höfum sérstöðu, við erum eyja og við erum ekki með neina (Forseti hringir.) raforkutengingu. Við erum í þeirri aðstöðu að rétt eins og jarðgasreglurnar eiga ekki við hér eiga þessar reglur bara ekkert við.