149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmanninum verður tíðrætt um málsmeðferð og talar um reglur sem eigi svo sannarlega ekki við hér. Ég tek undir það að reglur um jarðgas eiga ekki við hér, enda fengum við undanþágu frá þeim. Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn: Nú hefur þetta mál verið til meðferðar í stjórnsýslunni, bæði í ráðuneytum og hér hjá hinu hæstv. Alþingi, í tíu ár. Mig langar bara til að vita, ég bara átta mig ekki á því, hverju þingmaðurinn hefði, ef hann hefði fengið að ráða öllu, viljað bæta við málsmeðferðina nákvæmlega.

Hverju finnst þingmanninum ábótavant við þessa málsmeðferð? Telur hann að Alþingi Íslendinga eigi að taka sér 10, 20, 30 ár í svona mál? Hvenær er tími til þess kominn að við tökum ákvörðun? Ég held að tíminn sé núna.

Ég vitnaði áðan í bréf frá Stefáni Má Stefánssyni og Friðrik Árna Friðrikssyni Hirst frá 10. apríl sl., sem þingmanninum á að vera fullkunnugt um, því að við höfum setið saman á fjölmörgum fundum utanríkismálanefndar, þar sem þeir segja, með leyfi forseta:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá.“

Hvers vegna talar þingmaðurinn aftur eins og hann gerir hér, að þetta muni með einhverjum hætti ganga gegn stjórnarskrá, eftir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað í þingsal?

Og mér finnst merkilegt að þingmaðurinn tali um virðingu gagnvart íslenskri þjóð. Ég tel ekki að það feli í sér virðingu gagnvart íslenskri þjóð að halda uppi málþófi í næstum 200 klukkutíma og halda ítrekað á lofti röngum upplýsingum. (Forseti hringir.) Hvar er virðingin fyrir hinni íslensku þjóð? Hún er ekki hjá Miðflokknum.