149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er haldlaust fyrir hv. þingmann að endurtaka hér fullyrðingar án þess að nefna dæmi. Slíkar fullyrðingar flokkast undir það sem heitir á venjulegu, mæltu íslensku máli fleipur. Ég mun ekki að eyða frekari orðum í þær.

Það voru tvö atriði þarna sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega. Annað atriðið var málsmeðferðin. Ég hef nú hlustað á nokkrar ræður og allmargar og ég gat ekki betur heyrt, og ég vitna sérstaklega til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem rakti í ræðu sinni að á málsmeðferðinni væru ákveðnir gallar, og sömuleiðis nefndi hann að þetta fyrirkomulag þarfnaðist endurskoðunar, en að fleiri þingmenn tækju undir þetta. Þess vegna leyfi ég mér að segja að það sé a.m.k. allvíðtæk samstaða um þetta atriði; en ég heyri að hv. þingmaður er kannski ekki þátttakandi í slíkri samstöðu.

Það var annað atriði sem þingmaðurinn nefndi — sem var aftur hvað? Jú, það var þetta bréf þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og hinn fræðimaðurinn heitir, sem hv. þingmaður athugi vinsamlega, Stefán Már Stefánsson. Þeir rita bréf þann 10. apríl og hún nefndi atriði sem þeir nefna í upphafi bréfsins; en ef áfram er lesið kemur glögglega fram að þeir hafa af því áhyggjur að lagalegi fyrirvarinn, eins og rætt er um í því bréfi, gæti verið tilefni fyrir Eftirlitsstofnun Evrópu til að hefja gegn okkur samningsbrotamál. Þetta stendur í þessu bréfi og (Forseti hringir.) ég hvet hv. þingmann til að lesa þetta bréf til enda. (SilG: Lestu niðurlagið. Lesa allan textann.)