149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég hygg að búið sé að ræða þriðja orkupakkann, þ.e. þingsályktunartillöguna sem við fjölluðum um í gær, alveg nóg og gott betur en alveg nóg, gott betur en allt of mikið að mínu mati. En hérna erum við að ræða saman um önnur mál sem leiða af þriðja orkupakkanum og þar á meðal og fyrst og fremst þessi tvö frumvörp. Annað þeirra eru níu greinar og hitt tvær greinar ef við tökum gildistökuákvæðin með, átta greinar og ein grein ef við tökum þau ekki með.

Þetta eru frumvörpin sem eru lögð fram til að innleiða þennan hræðilega, agalega, ógurlega þriðja orkupakka. Þetta eru sum sé afleiðingarnar, það sem lendir inni í íslenskri löggjöf í kjölfar þess að við samþykkjum þriðja orkupakkann. Samkvæmt svari hv. þingmanns fyrr í dag er þetta allt sem koma skal í sambandi við löggjöf sem þarf að setja á Íslandi í kjölfar þess að þriðji orkupakkinn verður samþykktur. Það er í heildina níu ákvæði plús tvö gildistökuákvæði.

Þetta er ekki rosalega mikið miðað við það sem maður hefði geta haldið af umræðunni. Talað var um að hér ætti að setja á fót eitthvert ESB-útibú frá ACER sem ætti að stjórna orkunni og því um líkt. Ég hvet áheyrendur og kjósendur og hv. þingmenn til að lesa þetta frumvarp. Það sem er áberandi við það er hversu venjulegt það er. Ég efast um að margir myndu taka eftir slíkum frumvörpum venjulega þegar þau kæmu inn, ekki heldur eftir þessum stjórnvaldssektum og hækkunum á gjaldskrám. Þetta er ekki mikið.

Þetta er mjög lítið frumvarp, það er mjög lítið að ræða eins og sést á nefndaráliti minni hlutans. Það er undan mjög litlu að kvarta og reyndar sé ég ekki neitt í nefndaráliti minni hlutans gagnvart þessu frumvarpi annað en kvartanir yfir hækkun á gjaldtöku vegna raforkueftirlits. Það er aldeilis hvað sjálfstæðið er í mikilli hættu þar. Það er aldeilis mikilvægasta málefni Íslandssögunnar þar á ferð, að hækkuð sé gjaldtaka vegna raforkueftirlits. Æ, æ, æ, en hræðilegt. Ísland sekkur.

Í alvöru, virðulegi forseti. Þessi málflutningur er fáránlegur með hliðsjón af því sem við ræðum núna. Þetta er það sem stendur eftir eftir allt saman. Þetta er það sem maður átti að vera svona hræddur við, þetta eru öll landráðin, öll föðurlandssvikin, hérna eru allt fullveldi Íslands sokkið í sjóinn.

Virðulegur forseti. Þetta er brandari, ekkert minna en brandari.

Hitt sem kvartað er undan í nefndaráliti minni hlutans eru sektarheimildir Orkustofnunar. Segjum að gamni að við tökum þá gagnrýni góða og gilda, veltum því fyrir okkur. Og hvað? Samþykkir Alþingi frumvarp þar sem einum flokki, og kannski fleirum, finnst sektarheimildir vera aðeins of háar eða óþarfi að gjaldtaka sé hækkuð um hluta af aurum per kílóvattstund, að það sé kannski of mikið? En gott og vel, segjum það. Annað eins hefur gerst á Alþingi, að það sé ágreiningur um einhverjar krónutölur til eða frá.

Annað í frumvarpinu er sjálfstæði Orkustofnunar og ég vil endurtaka, undirstrika, feitletra og skáletra Orkustofnunar, ekki ACER á Íslandi, ekki ESA á Íslandi heldur Orkustofnunar, þeirrar íslensku stofnunar staðsettrar á Íslandi þar sem starfa, geri ég ráð fyrir, að yfirþyrmandi meiri hluta Íslendingar, ekki að það skipti endilega öllu máli.

Það er þess virði að líta aðeins yfir greinarnar til að sjá hvað þetta er allt saman hræðilegt. Nú tala ég í kaldhæðni auðvitað. Í 3. gr. frumvarpsins er t.d. talað um sjálfstæði Orkustofnunar. Ætli við skjálfum ekki öll á beinunum við að lesa það?

Svo er það 4. gr. Þar eru sett inn ákvæði um að Orkustofnun geti veitt skriflega áminningu og geti veitt stjórnvaldssektir. Ég ítreka að það er Orkustofnun, ekki ACER, ekki ESA.

Í 5. gr. er talað um að stjórnvaldsákvarðanir sem eru teknar af Orkustofnun á grundvelli þessara laga hvað varðar verkefni lúti ekki að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa o.s.frv. Þær sæta kæru til úrskurðarnefndar raforkumála þannig að þær fara ekki til ACER, ekki til ESA. Engir starfsmenn Evrópusambandsins munu taka við þeim kærum. Það verða íslenskar úrskurðarnefndir að taka við kærum frá Íslendingum vegna orkumála á Íslandi og í samskiptum við Orkustofnun á Íslandi.

Í 6. gr. er fjárhæðin 0,4 aurar hækkuð upp í 0,58 aura. Er eyjan ekki alveg farin að sökkva enn þá? Erum við ekki búin að glata fullveldinu enn þá í 6. gr. frumvarpsins? Svo er í b-lið hækkað um 45 aura líka.

Í 7. gr. kemur fram að ákvæði 3. mgr. 37. gr. er varðar kæruheimild til ráðherra fellur brott.

Í 8. gr. er Orkustofnun sögð sjálfstæð í ákvörðunum sínum þegar stofnunin sinnir raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum.

9. gr. er: Lög þessi öðlast þegar gildi ákvæði. Ákvæði a- og b-liðar 6. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2020.

Þetta eru öll landráðin. Þetta er allur hryllingurinn og hörmungarnar sem áttu að dynja yfir Ísland. Hvergi er minnst á það að Evrópusambandið fái eiga auðlindirnar okkar. Þetta er sem sagt innleiðingin á því sem við vorum að tala um í gær.

Ég veit alveg hverju hv. þingmenn myndu svara ef þeir væru inni í sal enn þá, og ég lái þeim það ekki, þeir hafa verið hér nóg. Það hljóta allir að sjá. Þeir hafa vissulega staðið sína plikt í þessum sal og gott betur. En ég ímynda mér að þeir myndu segja: Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, þetta er ekki málið. Lestu tilskipunina og reglugerðina frá ESB.

Það vill svo til, virðulegi forseti, að ESB setur ekki löggjöfina á Íslandi. Það er Alþingi Íslendinga sem setur lögin á Íslandi. Það er stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem gildir á Íslandi. Ef ESB finnst það slæmt er það bara vandamál ESB.

Síðan er það auðvitað hitt að við getum, vegna þess að við erum fullvalda þjóð og einungis vegna þess að við erum fullvalda þjóð, ákveðið að taka þátt í alþjóðasamstarfi og skuldbundið okkur til einhvers og eru slíkir samningar hugsaðir til að báðir græði í heildina, það er venjulega pælingin, en vissulega samþykkja einhverjir að gera eitthvað sem þeir myndu annars ekki gera. Alveg eins og þegar maður ræður sig í vinnu eða kaupir brauð úti í búð.

En Miðflokkurinn talar alltaf eins og hann vilji fara út í búð og kaupa brauð og ekki borga. Hann vill alltaf bara fá, það má aldrei gera neitt á móti því að þá er maður víst ekki með Íslandi í liði lengur samkvæmt þeim fráleita málflutningi sem maður hefur heyrt hér og víðar í samfélaginu um þetta mál.

Eitt af því sem er hægt að samþykkja að gera er að gera Orkustofnun sjálfstæða. Mér finnst það fín hugmynd, vegna þess að hvað á Orkustofnun að gera? Nú langar mig að svara málflutningi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sérstaklega, hann kvartaði undan því að stjórnmálamenn ættu ekki lengur að ákveða hlutina heldur embættismenn í útlöndum. Hann sagði þetta í ræðu áðan. Eftir allt sem á undan er gengið, eftir alla þessa mánuði af umfjöllun er hv. þingmaður enn þá haldinn þeirri ranghugmynd að embættismenn í Evrópu séu að fara að stjórna orkumálum á Íslandi. Hvar er það? Ætli það sé í 9. gr.? Nei, þar er gildistakan. Þetta er ekki hérna, virðulegi forseti. Það er einfaldlega ekki hérna. Þessar dómsdagsspár eru einfaldlega ekki í þessu plaggi.

Hvað varðar síðan hlutverk alþjóðasamninga og stöðu okkar í þeim getum við auðvitað samþykkt að gera eitthvað. Við getum t.d. samþykkt að gera Orkustofnun sjálfstæðari. Frábært, gerum það. Er það sjálfkrafa slæmt aðeins vegna þess að tillagan kemur frá Evrópusambandinu? Varla. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður úti í sal kemur kannski í andsvör og fer með mótsögnina í pontu.

Það sem mér finnst einna leiðinlegast við málflutning Miðflokksins og andstæðinga þessa máls á Alþingi — þetta gildir ekki um andstæðinga málsins úti í samfélaginu af því að þeir yfirleitt í annarri stöðu og vinna ekki beinlínis við að hafa kynnt sér það mál — er að hv. þingmenn sem hafa talað í dag beinlínis vinna við það. Þeir fá yfir milljón á mánuði fyrir að kynna sér svona mál og hafa þokkalega gott vit á þeim, ekki þannig að þeir geti alltaf lesið þau alveg í gegn og vitað allt um þau, en þeir eiga að hafa lágmarksþekkingu á þeim, alla vega vita hvað þeir eru að tala um, ekki í smáatriðum en í grunnatriðum. En hv. þingmenn Miðflokksins hafa sýnt það aftur og aftur að annaðhvort hafa þeir ekki sinnt þeirri grundvallarskyldu sinni eða þeir segja vísvitandi hluti sem þeir vita að eru ekki sannir. Ég þarf ekki að þylja upp fúkyrðin sem henta þeirri hegðun.

Það er ekkert í þessu frumvarpi gefur ástæðu til að halda þinginu í gíslingu mánuðum saman. Það er ekkert til að tryllast yfir. Það er alveg hægt að vera á móti einhverju í því. Mig grunar að hv. þingmaður úti í sal sé á móti sjálfstæðisákvæðinu, hafandi heyrt viðtöl við þann ágæta hv. þingmann.

En yfir í það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var að tala um áðan og hefur talað um áður. Hann hefur áhyggjur af því að embættismenn séu að taka yfir störf lýðræðislega kjörinna stjórnmálamanna. Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að fara en einungis ef ég hugsa ekki of mikið um það vegna þess að við erum að tala um neytendavernd og eftirlit, samkeppniseftirlit. Eiga stjórnmálamenn að sinna neytendavernd og samkeppniseftirliti, virðulegi forseti? Stjórnmálamenn eiga setja lög og semja ályktanir og annað slíkt og stjórna framkvæmdarvaldinu. Lögreglan á að vera sjálfstæð stofnun að einhverju leyti, stjórnmálamenn eiga ekki að vera að vasast í því hvernig lögreglan vinnur sín daglegu verk. Stjórnmálamenn eiga ekki að vasast í neytendavernd eða samkeppniseftirliti á raforkumarkaði. Hugmyndin er fáránleg.

Auðvitað getum við sett lög um það og við gerum það t.d. hérna eftir ágætri forskrift úr þriðja orkupakkanum þar sem er búið að fara yfir þetta af mjög mörgum þjóðum, rosalega mikið af snjöllu fólki er búið að fara mjög vel yfir það og komast að því hvernig sé gott að hafa sjálfstætt eftirlit með þessum markaði og tryggja neytendavernd betur o.s.frv. Það er fín lausn og við sem stjórnmálamenn getum ákveðið að fara þá leið.

Ég ætla að greiða atkvæði með þeirri leið þar sem mér finnst hún góð. Hv. þingmenn þurfa ekki að gera það en ekki láta eins og verið sé að draga úr lýðræðinu við það. Það er lýðræðisleg ákvörðun okkar að fara þá leið. Það er lýðræðisleg ákvörðun Alþingis Íslands að fara í samstarf með öðrum þjóðum og við stofnanir á borð við Evrópusambandið, að samþykkja hluti eins og EES-samninginn o.s.frv. Það eru ákvarðanir okkar. Frelsi okkar og sjálfstæði felst í því að við getum tekið slíkar ákvarðanir.

Hv. þm. Brynjar Níelsson getur t.d. ekki orðið aðili að EES-samningnum, hann getur ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu og hann getur ekki samþykkt þriðja orkupakkann. Ástæðan er sú að hann er ekki frjálst, sjálfstætt, fullvalda þjóðríki. (Gripið fram í.) Ekki enn þá alla vega.

Það eru einungis sjálfstæðar, fullvalda þjóðir sem geta tekið þátt í slíkum samningum. Það er það sem gerir þær fullvalda. Alveg eins og einungis frjálst fólk getur ráðið sig í vinnu einhvers staðar án þess að heita þrælar. Einungis einhver sem hefur eigin fjárráð getur keypt hluti og gert samninga um peningana sína. Það er hluti af því að vera fjárráða að geta það, að geta skuldsett sig fyrir íbúð er hluti af því að vera fjárráða. Þú getur það ekki nema þú sért fjárráða. Það er ekki skerðing á fjárræði fólks að kaupa sér íbúð eða skuldsetja sig fyrir slíkri. Á sama hátt er það ekki skerðing á fullveldi Íslands að samþykkja á hinu háa Alþingi Íslendinga hluti eins og þriðja orkupakkann.

Ég hélt ágæta ræðu um stjórnarskrána og framsalsákvæðið sem ég ætla ekki að endurtaka hér því að ég vona að fleiri komist að. En ég hygg að ef þessi frumvörp hefðu komið fram án þriðja orkupakkans hefði enginn tekið eftir þeim, þau hefðu flogið í gegn. Maður veit náttúrlega aldrei hvernig hv. þingmönnum Miðflokksins dettur í hug að greiða atkvæði en ég held að frumvörpin hefðu flogið í gegn án mikillar umræðu. Þetta er ekkert stórt mál, það er einfalt. Það að leggja sæstreng er stórt mál en það er einfaldlega ekki hérna inni. Það er ekki verið að leggja til sæstreng. Það er ekki verið að leggja til neitt útibú frá ACER. Það er ekki hérna.

Svo mikið af þeirri gagnrýni sem hefur fengið að flakka um þriðja orkupakkann gæti átt rétt á sér ef hún byggði á staðreyndum, þ.e. ef þær fullyrðingar væru réttar að hér væri einhver stjórnarskrárlegur vafi. Það ættum að taka alvarlega. En það er enginn stjórnarskrárlegur vafi. Enginn. Það er enginn stjórnarskrárlegur vafi á þessu máli eins og það var lagt fram. Þetta vita hv. þingmenn Miðflokksins. Það er bara vitað. Við erum búin að tala um það mánuðum saman. Það er á hreinu. Það eru allir sammála um það — nema hv. þingmenn hér í pontu. Hvers vegna? Vegna þess að það hentar ekki pólitísku markmiði þeirra að hræða almenning og stilla sjálfum sér upp sem verndara fullveldis og sjálfstæðis Íslands að segja satt um þetta mál.

Að lokum vil ég hvetja ég kjósendur aftur til að lesa þessi tvö frumvörp. Þau eru ekki stór, tvær blaðsíður, það má sleppa gildistökuákvæðunum. Þetta eru tvær litlar A5-blaðsíður af lagatexta. Það er allur hryllingurinn. Þar fór fullveldið fyrir lítið, eyjan sekkur o.s.frv. Hvílíkt bull, virðulegi forseti.