149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef rekist á þetta orð í þýðingum á þriðja orkupakkanum, sér í lagi í reglugerð nr. 713/2009 og gott ef ekki líka í tilskipun nr. 72/2009. Ég ítreka: 2009. Það eru tíu ár síðan. Það er nú allur flýtirinn.

Landsreglarinn er það sem virtist valda upprunalega misskilningnum, sér í lagi hjá Orkunni okkar sem virtist halda að landsreglarinn yrði einhvers konar útibú frá ACER sem kæmi hingað og hingað kæmu einhverjir vondir embættismenn frá útlöndum og þeir myndu fara að vasast í málefnum Íslendinga í raforkumálum..

Landsreglari er hins vegar hugtakið sem er notað yfir þá stofnun hvers þjóðríkis sem fer með eftirlit með raforkumálum. Í tilfelli Íslands er það Orkustofnun. Sem sagt hin íslenska, við erum ekki einu sinni að setja á fót nýja stofnun. Það er aðeins verið að útvíkka starfssvið Orkustofnunar og auka heimildir o.s.frv.

En já, landsreglarinn ógurlegi sem er búið að vara svo mikið við á sér nafn og nafnið er Orkustofnun. Ég er ekkert sérstaklega hræddur við hana og held ekki að hún muni valda neinum teljandi usla á raforkumarkaði hér í framtíðinni frekar en fyrr. Ég hef ekki áhyggjur af þessu.

En ég bið virðulegan forseta afsökunar á því að hafa nýtt þetta mikinn tíma í ræðu mína. Ég áttaði mig ekki á því hvað tíminn leið hratt. Ég ætlaði að hafa hana styttri. Ég skal stytta þessa hér.