149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[18:57]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög merkilegt að fylgjast með umræðunni í dag og stundum upplifir maður sig að maður sé einhvern veginn á milli tveggja heima. Það er erfitt að átta sig á þessu. Ég sjálfur var með miklar vangaveltur í upphafi í þessu máli, mátti jafnvel kallað mig efasemdarmann, en svo þegar maður fer svolítið yfir málið og skoðar það þá var það mín niðurstaða að það væri engin grundvallarbreyting með orkupakka þrjú. Engu að síður hefur orðið mikil umræða um þetta sem hefur verið leidd af Miðflokknum og ég var bara tiltölulega ánægður með þá umræðu. Ég sat heilu næturnar í þessum stól í vor. Ég held ég kunni ræðurnar utan að, en samt fannst mér það mjög gagnlegt. Maður skynjar hvernig menn horfa ólíkt á hlutina. Ég, auðvitað bara gamli lögfræðingurinn eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, horfi á textann og ég horfi á skýringargögnin og sé ekki þessi vandkvæði við orkupakka þrjú. Ég er ekki jafn góður og margir aðrir að lesa milli línanna og sjá eitthvað annað úr textanum en segir þarna. Ég sé það ekki.

Til dæmis er algerlega útilokað fyrir mig að komast að þeirri niðurstöðu að með orkupakka þrjú verði einhvers konar skylda íslenskra stjórnvalda að tengjast orkukerfi Evrópu. Sumir kalla það að þeir sem halda því fram séu í lögfræðilegum loftfimleikum. Það má vel vera að hægt sé að nota það orð, en auðvitað er ekki hægt með nokkru móti að skylda okkur til slíks frekar en að skylda okkur til að bora eftir olíu eða bora eftir gasi eða gera eitthvað slíkt. Það er útilokað miðað við íslensk lög. Enginn sæstrengur verður lagður nema við breytum ýmsum lögum. Og þegar sú skylda er ekki fyrir hendi að mínu mati þá er auðvitað engin skaðabótaskylda fyrir hendi. Það segir sig sjálft.

Það breytir því ekki að þetta mál snýst um miklu meira en lögfræði. Ég get talað hérna eins og lögfræðingur og sagt: Þetta er ekki svona. En það eru margir andvígir þessu. Okkur getur fundist það ástæðulaust, en það er bara veruleikinn. Og af hverju eru margir andvígir þessu? Auðlindir. Orkuauðlindin er okkur svo mikilvæg og eðlilega verður fólk tortryggið gagnvart okkur, að við séum ekki að fara vel með auðlindina. Ég skil það mætavel. Þegar eitthvað er okkur mikilvægt og sterkar tilfinningar tengjast því þá kann að vera að menn lesi öðruvísi í hlutina en ég. Við þær aðstæður er svo auðvelt í málflutningi að valda tortryggni, sá efasemdum um að þetta sé kannski öðruvísi en það er eða leiða líkur að því að þetta sé öðruvísi en það er. Þá verður fólk tortryggið og þá er mjög auðvelt að lesa á milli línanna og sjá eitthvað annað út úr hlutunum heldur en gögnin benda til.

Annar hópur sem er á móti þriðja orkupakkanum er það kannski vegna þess að menn vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum vera í einhverju samstarfi eða færa eitthvert vald til annarra en okkar þegar kemur að slíkri auðlind. Ég skil það líka. Fullkomlega skiljanlegt. En þá lendum við í þessu hagsmunamati. Þetta er hagsmunamat. Ég vildi gjarnan að engan varðaði neitt um það sem gerist hér, ég tala nú ekki um í auðlindamálum, en við erum í samstarfi. Við erum í samstarfi sem við flest ef ekki öll hér teljum mikið hagsmunamál fyrir okkur og fyrir þessa þjóð. Stundum verður ekki bæði sleppt og haldið. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Ég segi fyrir mitt leyti eftir ítarlega skoðun að það er ekkert að óttast í þessum orkupakka. Ég hef sagt það margoft áður að ég sé ekki þörf á að draga línuna hér með orkupakka þrjú ef þjóðin er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að deila með nokkrum öðrum reglum sem varða orku eða orkuauðlindir yfir höfuð. Ef svo er þá eigum við að taka umræðuna um EES-samninginn og IV. viðaukann. Er það virkilega þannig að við teljum hagsmunum okkar betur borgið, af því að þetta er mikilvæg auðlind, að vera hluti af þessum samningi að óbreyttu?

Sumir segja hér og hafa margoft sagt: Við eigum bara að hafna þessum orkupakka. Samningurinn segir hvað gerist þá. Þetta fer til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það yrði þá í þriðja sinn sem málið færi þangað. Það mun auðvitað ekkert breytast þar. Þetta er niðurstaðan úr sameiginlegu EES-nefndinni. Menn eru þá í raun að segja: Við ætlum ekki að vera í neinu samspili með orkuauðlindina og annaðhvort verður að taka þetta út fyrir okkur eða við verðum ekki með. Ég er ekki þar. Þannig horfi ég á þetta. Menn eru raunverulega að krefjast þess að orkan sé undanskilin. Ég er ekki tilbúinn að fara í slíka vegferð og setja allt í uppnám vegna þess hvernig orkupakki þrjú lítur út núna. Ég er ekki áhættufíkill hvað það varðar. Ég vil ekki fara þá leið af því að ég vil ekki vera í óvissu. Það hefur engan tilgang að senda það til baka.

Það er eitt atriði sem truflar mig í orkupakka þrjú og það var hluti af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar áðan, þetta fyrirbæri sjálfstæð Orkustofnun.

Ég hef alveg frá því að ég byrjaði á þingi 2013 verið á móti að meginstefnu til sjálfstæðum stofnunum sem eru einhvers konar eyland í samfélaginu, sem enginn ber ábyrgð á, lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa ekkert yfir að segja og hafa enga tengingu þangað, stofnanir sem fara bara með vald. Það er þess vegna sem mér finnst Evrópusambandið og allt það mjög ólýðræðislegt fyrirbæri, það er alltaf verið að færa valdið frá kjörnum fulltrúum, sem er mjög hættuleg þróun almennt.

En vandamálið við þetta samt er að við erum með eftirlitsstofnun sem þarf að hafa eftirlit m.a. með ríkisfyrirtækjum. Það er vandamálið þegar ríkið er í samkeppnisrekstri.

Ég segi: Ókei, ég get fallist hugsanlega á einhverja eftirlitsstofnun, hún þarf ekkert að heita sjálfstæð, bara eftirlitsstofnun, hefur eftirlit með þessu, en að hún úrskurði líka er annað. Ég hef alltaf verið á móti því að Fjármálaeftirlitið sé úrskurðaraðili. Fjármálaeftirlitið á í deilum við fyrirtæki og einstaklinga. Þessi orkustofnun getur átt í deilum við fyrirtæki og einstaklinga, en svo hefur annar deiluaðilinn úrskurðarvald. Hver fann þetta upp? Við erum svo upptekin af því að hafa faglegt fólk og eitthvert fyrirbæri úti í bæ sem hefur úrskurðarvald. Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt. Ég er búin að röfla um þetta síðan 2013 þegar ég kom inn á þing. Þetta er úti um allt stjórnkerfið á Íslandi, bara eitthvert fólk, t.d. Samkeppniseftirlit sem bara úrskurðar eitthvað. Að vísu er kostur við það að þar er einhver áfrýjunarnefnd, æðra stjórnvald, en Samkeppniseftirlitið þarf ekki einu sinni að fara eftir því, það getur farið í mál. Þetta er allt einhvern veginn bogið. Ég held að það sé fullt verkefni fyrir Alþingi að fara yfir þetta allt saman í heild sinni.

En þetta er auðvitað útúrdúr. Ég læt þetta atriði ekki valda því að ég sé á móti orkupakkanum. Það dugar ekki til. En þetta er hins vegar slæm þróun. Það er slæm þróun að lýðræðiskjörnir fulltrúar útvisti valdi sínu út og suður. Við höfum séð það í kringum mörg mál. Það var sjálfstætt kjararáð sem úrskurðaði eitthvað. Bíddu, ráðherra segir bara: Ekki horfa á mig. Fullt af einhverjum úrskurðaraðilum um hitt og þetta. Landsbankinn kringum Borgunarmálið. Þetta er bara eitthvert fólk. Við eigum þetta. Við stjórnum þessu. Nei, við ráðum því ekki, það er einhver armslengd. Hver fann þetta upp? Við þurfum að hugsa þetta algjörlega upp á nýtt.

Að lokum, hæstv. forseti, af því að ég lofaði að vera stuttorður. Eru komin svik? Allt að því.

Ég er bara að reyna að segja hér af hverju ég styð þetta mál. Ég er alls ekki að gera lítið úr andstæðingum, hvernig þeir lesa út úr þessu. Mér finnst bara frábær öll þessi umræða. Mér fannst frábær umræðan hér á næturfundunum í vor þegar ég sat hér, gjörsamlega frábær. Eins og eiginkonan sagði: Alltaf betra þegar þú ert ekki heima. En þetta var yndislegur tími. Takk fyrir, Miðflokkur.