149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þau tíðindi hafa orðið að fjórir löglærðir forystumenn í Sjálfstæðisflokknum, þar af formaður og varaformaður flokksins, þrír þeirra hæstaréttarlögmenn, hafa lýst því áliti að okkur sé óhætt án þess að EES-samningurinn fari í uppnám að leggja þetta mál fyrir EES-nefndina með það að markmiði að leita eftir undanþágu frá hinum umdeildu gjörðum. Ástæðurnar yrðu þær, eins og ég myndi vilja leggja það upp, að við höfum sérstöðu í þeim efnum rétt eins og höfum sérstöðu í jarðgasinu. Við erum ótengd við raforkukerfi Evrópu og sömuleiðis gætir mikilla áhyggna meðal íslenskrar þjóðar vegna þessa máls.

Í þriðja lagi myndi ég að sjálfsögðu vilja vekja athygli á því að af hálfu viðsemjenda okkar hafa verið gefnar út yfirlýsingar um skilning á sérstöðu Íslendinga. Þá vísa ég til hinnar sameiginlegu yfirlýsingar orkumálastjóra Evrópusambandsins sem á sæti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eftir því sem næst verður komist og utanríkisráðherra þar sem er lýst skilningi á sérstöðu Íslands. Sömuleiðis vísa ég til yfirlýsingar samstarfsþjóða okkar í EFTA-samstarfinu sem gefin var út 8. maí sl. á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem einnig er lýst skilningi á sérstöðu Íslendinga.

Herra forseti. Hér hafa orðið mikil tíðindi. Forystusveit Sjálfstæðisflokksins og miklir lögfræðingar, leyfi ég mér að segja, hafa lýst þessu áliti. Ég verð að segja að hugur minn er hjá utanríkisráðherra sem er skilinn eftir. Hann lagði málið upp á þeirri forsendu að sjálfur EES-samningurinn væri undir í því.