149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú heyrði ég ekki ræðu hv. þm. Sigríðar Andersen né minnist þess að hafa heyrt þetta í ræðu formanns flokksins. Hafi þau sagt það er ég ekki sammála því að höfnun á orkupakkanum verði án uppnáms. Ég sit í EFTA-nefndinni fyrir hönd þessarar ágætu stofnunar hér og ég met það þannig sjálfur eftir samtöl við marga menn að þá sé ekki aðeins EES-samningurinn í uppnámi heldur EFTA-samstarfið sem slíkt, vegna þess að þetta eru risahagsmunir. Menn líta einfaldlega svo á að við séum með samninga og í samstarfi sem mikilvægt er að menn standi við vegna þess að ef einn segir nei þá þýðir það nei fyrir Norðmenn og Liechtenstein. Ef það verður þannig að hvert og eitt ríki segi nei þegar því hentar, af því að menn hafa lesið eitthvað milli línanna eða túlka hlutina öðruvísi, þá þýðir ekkert að vera í slíku samstarfi. Það er í mínum huga sjálfdautt. Ég hef hins vegar sagt að þetta sé alltaf hagsmunamat. Ef ég teldi að við værum að missa yfirráðin yfir orkunni myndi ég kveðja þetta EFTA-samstarf og EES-samstarf algerlega kinnroðalaust og áhyggjulaus og glaður. En þar sem við erum ekki að því ætla ég ekki að setja þetta samstarf í uppnám, vegna þess að það hefur gífurlega þýðingu í mínum huga fyrir hagsmuni þessarar þjóðar.