149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var athyglisverð. Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því, eins og kom fram í ræðu hans, að EES-samningurinn verði í uppnámi verði málinu vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hv. þingmaður er löglærður og í EFTA-nefndinni eins og kom fram og hann verður að skýra betur þetta uppnám sem hann nefnir. Hvernig getur það, hv. þingmaður, valdið uppnámi að fara eftir samningnum? Þetta er samningsbundið ákvæði. Við getum farið með mál af þessu tagi til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Við getum óskað eftir undanþágu. Hvernig getur það valdið uppnámi? Mér er ómögulegt að skilja það, hv. þingmaður. Ég held að þú verðir að reyna að skýra það aðeins betur út fyrir okkur.

Auk þess langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það megi skilja orð hans á þann veg að hann telji að yfir höfuð eigi ekki að beita þessu ákvæði vegna þess að það muni setja allt í uppnám. Er þá ekki löggjafarvaldið komið yfir í sameiginlegu EES-nefndina? Erum við þá ekki bara búin að afsala því? Er þessi samningur bara á einn veg, hv. þingmaður? Ég hefði gjarnan viljað fá betri útskýringar á þessu hjá hv. þingmanni, sérstaklega varðandi uppnámið.