149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal skýra uppnámið. Ég segi á móti: Þetta mál er búið að vera árum saman í sameiginlegu EES-nefndinni sem menn ætla að fara að vísa málinu einu sinni enn til. Þetta er niðurstaða sameiginlegu EES-nefndarinnar, þessi búningur málsins hér. Það hefur engan tilgang að beita þessu neyðarúrræði, það er auðvitað neyðarúrræði. Í mínum huga er þetta eins og ákvæði um að ganga út úr ESB. Þú ert bara fara út. Þú ert kominn að niðurstöðu, hafnar henni samt. Þú ert í raun og veru að segja í mínum huga: Bæ, bæ. Þannig horfi ég á þetta ákvæði í raun og veru.

Raunveruleg krafa Miðflokksmanna og fleiri er að ef það er ekki samþykkt af hálfu sameiginlegu EES-nefndarinnar að orkan sé undanskilin hjá okkur, þá verðum við ekki með. Það er það sem er verið að gera, hv. þm. Birgir Þórarinsson. Þetta er held ég öllum ljóst, öllum okkar sérfræðingum, öllum þeim sem starfa við þetta. Það er verið að segja: Við ætlum ekki að vera með nema orkan verði hreinlega undanskilin í þessum samningi okkar. Það er bara því miður ekki í boði. Ég vildi það gjarnan, en það er líka alveg óþarfi að undanskilja hana að öllu leyti því að það er margt gott í þessu sem mér finnst ágætt og sumt af þessu erum við búin að setja í lög fyrir löngu síðan og enginn sagði neitt af því að það voru góð ákvæði (Forseti hringir.) og góðar reglur. Þannig horfi ég á þetta, hv. þingmaður.