149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég spurði hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, þar sem hún situr í utanríkismálanefnd, hvort hún þekkti það að komið hefði fram frá Evrópusambandinu að samningurinn gæti verið í uppnámi ef við myndum ekki staðfesta þennan orkupakka. Svar hv. þingmanns var á þann veg að hún kannaðist ekki við að nein skilaboð hefðu komið frá Evrópusambandinu hvað það varðaði.

Því vil ég spyrja hv. þingmann: Þurfum við ekki að fá það staðfest frá Evrópusambandinu að ef við innleiðum þetta ekki þá verði samningnum sagt upp? Hv. þingmaður er bara með einhverjar vangaveltur. Hann trúir því og heldur það og er að tala við einhverja karla, þingmenn, í EFTA um að þetta gæti hugsanlega farið í uppnám. Við verðum að fá það staðfest, hv. þingmaður. Um það snýst málið.

Ég spyr enn og aftur: Hefur hv. þingmaður fengið það einhvers staðar staðfest frá Evrópusambandinu að ef við innleiðum ekki þennan orkupakka þá fari allt í uppnám og samningnum verði sagt upp?