149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:28]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við saman þrjú af þeim fjórum málum sem tengjast afgreiðslu orkupakka þrjú eins og svo er kallaður. Það eru tvö frumvörp, ein þingsályktunartillaga og fyrirliggjandi nefndarálit atvinnuveganefndar. Um er að ræða breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun sem ganga út á aukið sjálfstæði Orkustofnunar við eftirlit í þágu neytenda, í öðru lagi breytingu á raforkulögum um að tenging raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og er það mál einmitt í samræmi við þriðja málið, tillögu til þingsályktunar þar sem skýrt er kveðið á um að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema að undangengnu samþykki Alþingis.

Ég er sérstaklega ánægð með að hér er tekið af skarið um aðkomu Alþingis að ákvörðun um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annarra landa. Ég hef lengi verið og er þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að nýta orku sem beisluð er á Íslandi hér á landi þótt ekki væri nema vegna beinna og óbeinna umhverfisáhrifa af lagningu sæstrengs og orkutapi við flutning raforku langar leiðir. Ég bind líka miklar vonir við að tækniframfarir næstu ára verði til þess að mannkyninu gangi betur að afla endurnýjanlegrar orku sem næst þeim stað þar sem hún er nýtt hverju sinni.

Mikið hefur verið rætt og ritað um innleiðingu þriðja orkupakkans síðustu mánuði og ekki miklu við það að bæta þannig að ég ætla bara að tæpa á örfáum atriðum og láta að mestu vera að eltast við lýðskrumið sem mér finnst hafa stöðugt náð nýjum hæðum í þessari umræðu. Þegar látið er að því liggja að fjármögnun raforkueftirlits ætti að vera með sama hætti og fjármögnun Landspítalans gekk alveg fram af mér í dag og það af manni sem ítrekað talar niður til eftirlitsstofnana.

Þingleg meðferð orkupakka þrjú hófst árið 2009 með aðkomu ráðherra og þingnefnda. Ríkisstjórn Íslands hafði málið til meðferðar í nokkuð marga mánuði áður en það kom til þingflokka ríkisstjórnarinnar og þá sem fjögur mál. Flokkarnir skoðuðu málin ítarlega og afgreiddu til þinglegrar meðferðar. Nefndir þingsins hafa nú rannsakað efnisatriði orkupakka þrjú og skilað álitum. Ég hef líka kynnt mér málin og þær áhyggjur sem fram hafa komið um þau. Ég hef mikinn skilning á áhyggjum fólks sem er, eins og mér, annt um sjálfsstjórn yfir auðlindum landsins. Ég er hins vegar algjörlega sannfærð um að þessi mál hafa ekki neikvæð áhrif á ráðstöfunarrétt okkar á auðlindunum eða draga úr tækifærum til að gera úrbætur í orku- og auðlindamálum hér á landi.

Ég mun eins og allur þingflokkur Framsóknarflokksins áfram leggja mikla áherslu á vinnu með áskoranir í orku- og auðlindamálum. Margar þessara áskorana hafa einmitt komið til umfjöllunar í tengslum við afgreiðslu þeirra mála sem við ræðum hér og allar eru þær bæði mikilvægar og réttmætar. Þær hafa þó lítið eða ekkert að gera með þau fjögur mál sem við erum að afgreiða þessa dagana. Við verðum að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í stefnumótun, svo sem við mótun orkustefnu sem er í vinnslu, við mótun eigendastefnu Landsvirkjunar og Landsnets og í bættri lagaumgjörð um orku- og auðlindamál innan lands. Þá þurfum við stöðugt að fylgjast með og tryggja hagsmuni Íslendinga við uppfærslu á umgjörð orkumála í EES-samstarfinu því að regluverk EES-samningsins í orkumálum verður í stöðugri uppfærslu. Orkunýting og orkunotkun eru nú einu sinni á meðal stærstu hagsmunamála mannkynsins. Hagkvæm og umhverfisvæn orkunotkun allra Evrópubúa er mikið hagsmunamál okkar Íslendinga og að þar takist vel til er hluti af lausnum á loftslagsvanda heimsins.

En aftur heim. Mikilvægt er að vinna að þeim verkefnum sem sannarlega eru á okkar valdi að leysa hér innan lands. Eins og áður sagði þurfum við m.a. að koma á einu verði á dreifingu raforku í landinu. Við þurfum að skapa frekari hvata til nýtingar innlendrar orku til matvælaframleiðslu, svo sem í garðyrkjunni. Við þurfum að skýra ábyrgð og skyldur sem fylgja eignarhaldi lands og hlunninda og að land verði í eigu landsmanna og koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Margt í umræðunni um orkupakka þrjú stenst enga skoðun en ég virði sjónarmið og áhyggjur þeirra sem vilja fara með ýtrustu gát í málum sem snerta ráðstöfun og nýtingu auðlinda landsins. Eftir að hafa kynnt mér þessi mál í heild og samhengi við aðra vinnu og stefnumótun mun ég styðja þessi mál. Samvinna er nú sem áður lykillinn að árangri við að bæta umgjörð orku- og auðlindamála hér á landi og í Evrópu.