149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni andsvarið. Ég hef ekki lesið umrædda frétt á vef Morgunblaðsins en velti fyrir mér hvaða kröfur íslenskra laga er verið að vísa til. Þingmaðurinn gæti kannski upplýst það.

Umhverfismat hefur í öllu falli ekki farið fram og það mun taka einhver ár komi til slíks í þessu samhengi sem og ýmislegt annað sem tengist hafréttarsáttmálanum.

Það er alveg skýrt að orkupakkinn nær einungis yfir flutning, þar sem þingmaðurinn vísar til ákveðinna atriða, orku yfir landamæri. Auðvitað er flutningur orku og sala orku til norsku borpallanna með sama hætti og undir orkustofnun Noregs eins og flutningur orku innan lands er undir Orkustofnun Íslands. Að öðru leyti átta ég mig ekki á spurningu þingmannsins.

Varðandi Belgíu hefur margoft verið farið yfir það í dag og í gær að þar er einfaldlega um að ræða að orkustofnunin í Belgíu, sú stofnun sem fer þar með sambærileg verkefni og íslenska orkustofnunin, hefur einfaldlega ekki þær heimildir sem stendur að hún skuli hafa samkvæmt belgísku innleiðingunni.