149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er akkúrat rétt að Belgar innleiddu tilskipunina á rangan hátt. Það er nákvæmlega það sama og íslensk stjórnvöld virðast ætla að gera, innleiða þennan orkupakka í lög á rangan hátt.

Hv. þingmaður ætti kannski að hlusta á það að aldrei áður í sögunni hefur verið innleitt með einhliða fyrirvara. Það hefur aldrei gerst áður að ríki taki einhliða fyrirvara við innleiðingu á löggjöf frá Evrópusambandinu. Þar af leiðandi getur ekki verið að innleiðingin sé rétt. Er hv. þingmaður að segja mér að ef við innleiðum með þessum hætti sé það rétt innleiðing?

Í öðru lagi langar mig að spyrja þingmann: Ef það er þannig að tilskipun um þriðja orkupakkann gildi í efnahagslögsögu Noregs og landgrunni Noregs gildir hún þá ekki í efnahagslögsögu og landgrunni Íslands?