149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég er meðvitaður um hversu skammur tími er til stefnu og mun passa mig á því að tala ekki of lengi þótt ræður margra hv. þingmanna undanfarna tvo daga sýni kannski fram á að það hefði verið gott að hafa lengri tíma fyrir þessa umræðu um þriðja orkupakkann. Það hefur t.d. komið í ljós í umræðunni í dag að einhverjir þingmenn virðast ekki gera sér grein fyrir hvernig innleiðing EES-reglugerða virkar, hafa veifað hér frumvarpinu, einu frumvarpi af fjórum og finna bara ekkert í frumvarpinu til að hafa áhyggjur af. Þeir virðast einfaldlega ekki átta sig á því að þegar þingið er búið að veita ríkisstjórninni heimild til innleiðingar að fullu, eins og í þessu tilviki, verður evrópska regluverkið að lögum hér, ekki bara textinn í heimildinni til innleiðingar. Nei, það sem Evrópusambandið leggur upp með, þriðji orkupakkinn, verður að lögum hér.

Mér finnst ótrúlegt að heyra núna á lokaspretti þessarar umræðu að það séu þingmenn sem gera sér ekki grein fyrir því hvernig innleiðing Evrópureglugerða virkar. Menn hafa sett út á að lesið sé of mikið í aðfaraorð þriðja orkupakkans en líta fram hjá því að Evrópuréttur er mjög drifinn áfram af markmiðum regluverksins, svoleiðis að reglurnar sem fylgja aðfaraorðunum eru túlkaðar í anda aðfaraorðanna. Það eru þau sem leggja línurnar um hvernig beri að túlka það sem á eftir kemur.

Það veldur mér líka áhyggjum að háttvirtir alþingismenn, sumir hverjir, skuli í rauninni tala fyrir breytingu á því hvernig við nálgumst EES-samninginn og séu hættir að líta á þann samning sem samning fullvalda ríkja sem eiga að skila gagnkvæmri hagkvæmni fyrir alla aðila og séu farnir að nálgast EES-samninginn, og virðast ætla að gera það til framtíðar, á þann hátt að í honum felist boðvald yfir Íslandi. Og við skulum ekki dirfast að efast um það vald, ekki einu sinni leyfa okkur að nýta ákvæði samningsins til að fá úrlausn okkar mála, ákvæði sem er skýrt skrifað inn í samninginn sjálfan. Nei, nú eigum við að vera svo hrædd um að vera rekin úr þessum samningi, hvernig sem það gengi fyrir sig, af því að enginn myndi vilja semja við okkur aftur, að við verðum bara að láta okkur hafa hvað sem er. Hvaða skilaboð er verið að senda til Evrópusambandsins og samstarfslanda okkar í ESA með slíku tali? Skilaboðin hljóta að vera þau að við munum bara láta okkur hafa nánast hvað sem er vegna þess að við erum orðin hrædd við að vera annars sagt upp ef við dirfumst að nýta greinar sem eru í samningnum. Það kom að vísu fram í umræðu í dag og í gær, bæði frá formanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni þess flokks, að þau teldu alveg ljóst að við hefðum þessa heimild samkvæmt samningnum og enga hættu á að það að nýta þá heimild myndi setja samninginn í uppnám, en töldu reyndar ekki tilefni til. Þá liggur alla vega fyrir af hálfu þessara forystumanna Sjálfstæðisflokksins að þeir gera sér grein fyrir því að þessi heimild er til staðar. Ef við nýtum hana ekki nú, í þessu stóra umdeilda máli, hvenær ætlum við þá að gera það? Ef við nýtum hana erum við að virkja greinina, þá erum við að halda henni gangandi, þá erum við að styrkja EES-samstarfið og sýna að í því felist ekki boðvald erlendra ríkja yfir Íslandi heldur möguleikinn á því að leita sátta þegar menn fá efasemdir um innleiðingar.

Það hefur enn ekki tekist að útskýra hvers vegna við þurfum að innleiða, hvaða hagur liggi í því. Dregin hafa verið upp einhver leiktjöld um neytendavernd og slíkt, innflutt röksemdafærsla sem ekki hefur tekist að heimfæra á íslenskar aðstæður. Ekki hefur tekist að útskýra hvers vegna við getum ekki sent málið aftur í sameiginlegu EES-nefndina, hvers vegna við ættum ekki að gera það og raunar hafa, eins og ég gat um áðan, forystumenn Sjálfstæðisflokksins staðfest að það væri ekkert því til fyrirstöðu ef við vildum það.

Margir hafa bent á Miðflokkinn og sagt að þessar miklu efasemdir og miklu umræður um þetta mál snerust einfaldlega um andstöðu Miðflokksins og einhver pólitísk útspil hans. Mér finnst að með slíku tali sé fólk sem það gerir að gera lítið úr félögum sínum í flokkum sínum og í rauninni að gera lítið úr þjóðinni því að andstaða við innleiðingu þessa þriðja orkupakka er víðtæk. Hún er ekki bara í þingflokki Miðflokksins. Hún er svo sannarlega í baklandi Sjálfstæðisflokksins, í baklandi Framsóknarflokksins, í baklandi Vinstri grænna og meðal kjósenda eða stuðningsmanna flokka eins og meira að segja Viðreisnar og Samfylkingarinnar, þar sem meiri hluti er á móti þessari innleiðingu. Svo leyfa menn sér að koma hér og halda því fram að þetta sé bara Miðflokkurinn að þyrla upp moldviðri og gefa þannig eigin félögum langt nef.

Það hafa líka birst ótal raundæmi um áhrifin af því að innleiða þriðja orkupakkann í umræðunni á meðan á henni hefur staðið og reyndar fyrr. Landgrunnsmálið í Noregi er kannski einna nýjasta dæmið og fyrst hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir taldi það vera eitthvert efamál vegna þess að Norðmenn væru ekki búnir að innleiða pakkann af því að við værum ekki búin að klára það snýst þetta ekki um það. Þetta snýst einfaldlega um staðfestingu af hálfu Evrópusambandsins um að Norðmenn fái ekki undanþágu út á landgrunnið. Með öðrum orðum, orkupakki þrjú gildir fyrir landgrunnið ekki síður en annað og landgrunnsafsökunin varðandi sæstreng heldur fyrir vikið ekki velli.

Evrópusambandið er í málaferlum við 12 ríki sambandsins vegna þess að þau hafa ekki fallist á að bjóða út orkuauðlindir, bjóða út virkjanir sem jafnvel ríkisfyrirtæki byggðu fyrir áratugum síðan — en menn líta fram hjá þessu. Hvað fælist í því ef slíkt yrði boðið út? Jú, uppbrot fyrirtækjanna, þar með talið stórra ríkisorkufyrirtækja.

Fyrr í sumar stefndi Evrópusambandið Belgíu fyrir Evrópudómstólnum. Ég rakti þetta í fyrri ræðu svoleiðis að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það núna. Ég vil bara nota tækifærið í framhaldi af ræðu hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur til að benda á að það var alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, þetta mál snerist m.a. um það að orkustofnunin í Belgíu hefði ekki fengið nógu mikið vald, ekki vald til að taka bindandi ákvarðanir í orkumálum landsins. Hvert var svar hæstv. fjármálaráðherra við þessu? Jú, þetta verður ekki vandamál í innleiðingunni hjá okkur vegna þess að við ætlum að veita íslenskan landsreglaranum Orkustofnun þetta vald. Með öðrum orðum, íslensk stjórnvöld ætla að standa sig betur en Belgía, vera þægari en Belgía í að gefa eftir lýðræðislegt vald til stofnunar sem tekur við boðum frá útlöndum, frá erlendum embættismönnum, og þannig ætlum við að uppfylla betur en landið þar sem höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru til húsa. Menn hafa reynt að halda því fram að aðstæður séu á einhvern hátt ekki sambærilegar og að þetta þýði ekki að við gætum þurft að heimila lagningu sæstrengs þó að í belgíska málinu sé reyndar sérstaklega talað um tengingu milli landamæra og vald landsreglarans yfir því.

En lítum þá á raundæmi aftur, lítum á Kýpur. Kýpur er eyja eins og Ísland, eins og menn þekkja. Nú er verið að tengja Kýpur við Grikkland með sæstreng — og hvernig gerist það? Jú, fjárfestar höfðu áhuga á að leggja þann sæstreng, einkaaðilar. Þeir tilkynntu ACER um áhuga sinn. Síðan þá hefur ACER jafnt og þétt skilað frá sér skýrslum um gang málsins og fylgst með því að Grikkland og Kýpur þvælist ekki fyrir verkefninu heldur fylgi leiðsögn þessarar sameiginlegu evrópsku stofnunar í málinu.

Þau rök sem ég hef helst heyrt frá stuðningsmönnum málsins í dag eru þau að þetta sé búið að vera svo lengi í vinnslu, að við séum búin að hafa þetta hangandi of lengi yfir okkur og þess vegna verðum við að samþykkja. Ég fellst ekki á þann málflutning og bendi hinum sömu á að þetta mál klárast ekki á mánudaginn. Þótt umræðunni sé nú að ljúka eru áhrifin af innleiðingunni rétt að byrja verði þetta samþykkt á mánudag. Slík ákvörðun mun hafa eftirmála til langrar framtíðar.