149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef verið hugsi yfir málflutningi hv. þingmanns og samflokksmanna hans og þessum ótal mörgu klukkustundum. Þetta er gamaldags stórkarlaleg hetjupólitík sem gengur út á það í sem fæstum orðum að hv. þingmaður hafi einn rétt fyrir sér og fólkið í kringum hann. Allir aðrir hafi rangt fyrir sér, sama hvaðan fólk kemur, hvort það eru sérfræðingar, hvort það eru kollegar hv. þingmanns inni á þingi eða hverjir sem það eru. Ég gef ekkert fyrir svona pólitík. Ekki neitt. (Gripið fram í.) Hvað þá þú, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson.

Mig langar að reyna að eiga orðastað um raunverulega hluti sem liggja undir í þeim þremur málum sem eru til umræðu í dag við hv. þingmann, ekki í einhverjum hliðarveruleika. Er hv. þingmaður á móti því að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis? Fyrsta spurning.

Önnur spurning. Er hv. þingmaður á móti því að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng, ef til komi, fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku?

Er hv. þingmaður á móti því að Orkustofnun fái nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði?