149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er aldeilis ekki að halda því fram að ég hafi einn rétt fyrir mér. Öðru nær. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður missti af fyrri hluta ræðu minnar. Ég var einmitt að benda á það að þetta mál snýst ekki um mig einan, það snýst ekki um Miðflokkinn einan. Það snýst um afstöðu þjóðarinnar sem hefur efasemdir um þetta mál. Ég er ekki einn um það. Þingflokkur Miðflokksins er ekki einn um það. Meiri hluti stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er sammála okkur í þingflokki Miðflokksins. Meiri hluti stuðningsmanna Framsóknarflokksins er það líka og svo sannarlega meiri hluti stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Og talandi um ósk hv. þingmanns um að ræða raunverulega hluti, það voru einmitt raunverulegir hlutir sem ég var að draga fram í ræðu minni og benda á staðreyndir.

En svo ég svari spurningunum sem fyrir mig voru lagðar þá er ég að sjálfsögðu ekki þeirrar skoðunar að það ætti að leggja sæstreng án aðkomu Alþingis og ég er að sjálfsögðu ekki annarrar skoðunar en að slíkt þurfi að fara samkvæmt stefnu stjórnvalda, eins og reyndar er tilvikið nú þegar.

Hvað varðar eftirlitsstofnunina Orkustofnun: Já, ég er ósammála því að hún fái vald með þeim hætti sem lagt er upp með hér.

En þótt ég hafi verið sammála fyrri tveimur atriðunum sem hv. þingmaður nefndi þá bendi ég þó á að það að innleiða þriðja orkupakkann að fullu en ímynda sér svo að seinna sé hægt að ákveða, hvort sem er á Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu, að fylgja ekki þriðja orkupakkanum, er í besta falli óskhyggja og afstaða sem enginn þingmaður ætti að leyfa sér að tala fyrir, svo fjarstæðukennt er það.