149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Aftur erum við komin í hliðarveruleika hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hversu margir sérfræðingar hafa einmitt talað um að hér sé verið að tryggja og búa þannig um hnútana að þetta haldi? Sérfræðingar sem hv. þingmaður vitnar aldrei til. Hann handvelur þá örfáu sérfræðinga sem hugnast honum og sýnir ekki einu sinni þann sóma að ávarpa hina og hrekja þeirra málflutning ef hann telur sig geta það, ég held hann telji sig nú geta hrakið nánast hvað sem er í þessari veröld.

Það er ekki hægt, forseti, að draga aðra ályktun af orðum hv. þingmanns í svari við andsvari mínu hér en að hann sé að segja fullum fetum að það sé ekki í höndum Íslendinga hvort hér kemur sæstrengur eða ekki. Ég minnist þess að ýmsir þingmenn Miðflokksins hafa verið að reyna að hlaupa frá þeirri skoðun í umræðunni síðustu daga. Það er þá ágætt að formaður Miðflokksins láti það vera sinn lokapunkt í þessari umræðu að segja að það skipti engu máli hvað Íslendingum, íslenskum stjórnvöldum eða nokkrum öðrum hér á landi, finnist um lagningu sæstrengs. Við ráðum engu um það.

Þetta, forseti, er dæmi um þennan hliðarveruleika sem ég neita að taka þátt í.