149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[19:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nýtt að í stórum og umdeildum pólitískum málum skili sérfræðingar ólíkum álitum, hafi ólíka skoðun. Þá er það stjórnmálamanna að leggja mat á hlutina og gera það sem þeir telja rétt. En það er hins vegar sjaldgæft að menn búi við þann lúxus, ef svo má segja, á meðan þeir velta hlutunum fyrir sér, að staðreyndir málsins birtist þannig að það þurfi ekki lengur að velta því fyrir sér hvor hafi rétt fyrir sér, það sé einfaldlega sýnt fram á það, eins og ég hef rakið í fyrri ræðum, með fjölmörgum dæmum um hvernig þriðji orkupakkinn eftir innleiðingu virkar í raun og veru.

Hvað varðar spurninguna um atkvæðagreiðslu á Alþingi og þess vegna þjóðaratkvæðagreiðslu, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan: Að sjálfsögðu er þetta í okkar hendi. Við hefðum getað ákveðið hér á þinginu að uppfylla ekki kröfurnar um að heimila innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum matvælum. En okkur var sagt að ef við gerðum það þá þyrftum við að greiða skaðabætur út í hið óendanlega.

Þetta er sú staða sem nú er hugsanlega verið að setja Ísland í, taka sénsinn á að innleiða að fullu og ef raunveruleikinn birtist svo aftur skyndilega, eins og hann hefur gert í Belgíu og víðar, þá munum við einfaldlega neita að hlýða því sem við erum búin að samþykkja. Alþingi mun neita að fylgja þeim reglum sem það er búið að fallast á, búið að innleiða, að lögleiða. Það frelsar okkur ekki undan kröfu um skaðabætur og það styrkir svo sannarlega ekki stöðu okkar í EES-samstarfinu.

Þeir sem tala hér mikið fyrir samskiptum ríkja, góðum viðskiptum og samskiptum við útlönd, ættu kannski umfram aðra að hafa varann á á mánudaginn og sýna að EES-samningurinn raunverulega virki til (Forseti hringir.) að gæta hagsmuna þeirra ríkja sem þar starfa. Ef þeir gera það ekki (Forseti hringir.) þá er ég hræddur um að það komi upp mörg tilvik þar sem verður ástæða til að minna þá á þá ákvörðun.