149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég hef undanfarna daga heyrt í fólki sem hefur áhyggjur af því að samþykkt þriðja orkupakkans muni gera okkur valdalaus gagnvart nýjum virkjunum svo hægt sé að selja raforku í Evrópu. Þetta eru áhyggjur sem ég hef heyrt mikið undanfarna daga en ekkert í þeim skjölum sem eru til umfjöllunar í dag breytir nokkru um forræði íslenska ríkisins á náttúruauðlindum, ekkert. Misvísandi málflutningur gegn þriðja orkupakkanum virðist hafa verið hannaður til að vekja upp efa hjá fólki og draga úr trausti. Það var skortur á trausti fyrir þannig að það hjálpar ekki heldur. Það breytir því ekki að ekkert í þriðja orkupakkanum gefur nokkra vísbendingu um fleiri virkjanir í náttúru Íslands né að lagður verði sæstrengur.

Ég mun greiða atkvæði út frá staðreyndum málsins en ekki út frá tortryggni og áróðri. Að því sögðu myndi ég greiða atkvæði gegn frekari virkjunum sem eyðileggja óspillta náttúru Íslands en þetta mál snýst ekki um það.