149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:46]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum nú atkvæði um orkupakka þrjú, fyrst um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara, síðar um það sem raunverulega er í orkupakka þrjú, m.a. um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja þar sem við fengum undanþágu. Umræðan hefur snúist um margt annað og helst það sem ekki er í pakkanum, um að við séum með einhverjum hætti að afsala okkur yfirráðum auðlinda, að um óeðlilegt valdframsal sé að ræða. Það er firra, virðulegi forseti, að einhver myndi samþykkja slíkt og hefur verið vandlega hrakið. Umræðan hér að lokum kjarnast um lagningu sæstrengs. Það er og verður alltaf ákvörðun Alþingis og verður enn frekar tryggt samþykkjum við málið í dag. Við Framsóknarmenn leggjum áherslu á að auðlindir eru sameign þjóðarinnar og viljum slíkt ákvæði í stjórnarskrá og að orkufyrirtækin eigi að vera í opinberri eigu. En það er önnur og frekari umræða.

Virðulegi forseti. Við Framsóknarmenn samþykkjum þetta mál með þeim fyrirvara sem lagður er hér til um grunnvirki sem gera tengingu mögulega við orkumarkað ESB, að þau verði ekki reist nema með aðkomu Alþingis og endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar.