149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú er lokið lengstu umræðu þingsögunnar og loks komið að því að ganga til atkvæða. Umræðan hefur tekið 150 klukkustundir og er ágætt að minnast þess að norska Stórþingið varði fjórum og hálfri klukkustund í að ræða nákvæmlega sama mál. Óhætt er að segja að málið sé fullrannsakað og öllum spurningum hefur verið svarað.

Þriðji orkupakkinn er ekki hættulegur fyrir Ísland. Um er að ræða eðlilega og góða uppfærslu á því regluverki sem samþykkt var fyrir 12 og 16 árum. Enginn vafi leikur á því að þriðji orkupakkinn, eins og hann liggur fyrir, stenst stjórnarskrá. Með samþykki þeirra þingsályktunartillagna og frumvarpa sem liggja fyrir í dag erum við að auka enn frekar á neytendavernd. Við erum að tryggja, umfram það sem hingað til hefur verið gert, að hingað verður aldrei lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis. Ákvarðanir um notkun auðlinda okkar verða eftir sem áður á valdsviði þeirra sem þennan sal skipa og orkupakki þrjú gerir enga kröfu um einkavæðingu orkufyrirtækjanna. Ákvarðanir um slíkt munu alltaf vera á herðum íslenskra stjórnvalda og ekki stendur til að einkavæða Landsvirkjun.