149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér verður ekkert samþykkt nema það sem er í þriðja orkupakkanum. Eðli málsins samkvæmt getum við ekki samþykkt eitthvað sem er ekki þar. Það er innihald pakkans sem skiptir máli, ekki hvað aðrir segja um það innihald. Það er enginn vafi á því að málið stenst stjórnarskrá. Ég veit ekki um neinn lögspeking sem heldur því fram að það sé vafi. Það var vafi í málinu eins og það var í fyrra, það var lagt fram með hliðsjón af þeirri umræðu sem spratt af þeim lagalegu skoðunum en málið sem við afgreiðum hér stenst stjórnarskrá. Það liggur fyrir og það er enginn vafi, ekki úr nokkurri átt að mér vitandi meðal lögspekinga. Það er ekkert í málinu sem leiðir til sæstrengs, hvorki beint né óbeint. Það varðar ekki orkuauðlindir yfir höfuð, hvorki framsal né nýtingarrétt. Þetta er ekki fullveldisframsal, hvergi nálægt því, það er enginn aukinn hvati til virkjana án sæstrengs og það er engin einkavæðing.

Ég greiði atkvæði með málinu fyrir hagsmuni Íslands, vegna þess að ég tel það vera í samræmi við hagsmuni Íslands. Það styrkir samkeppniseftirlit. En tortryggnin snýst um nýja stjórnarskrá eins og fram hefur komið, (Forseti hringir.) um auðlindir í þjóðareign, skráð og skýr mörk á framsali valds, þjóðaratkvæðagreiðslur og Lögréttu. En hvorki tortryggnir eða svikulir stjórnmálamenn breyta því sem stendur í pakkanum sjálfum. Ég greiði atkvæði með honum.