149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við erum komin á þann stað að meira að segja Stefán og Friðrik, sem mikið hafa verið nefndir í þessari umræðu, segja að með því hvernig þessi pakki er afgreiddur á Alþingi, með því að það sé sett inn í orkustefnuna að það þurfi samþykki Alþingis — sumir segja að það sé ekki nóg en það þarf samt samþykki Alþingis sem þýðir að það er hægt að stunda aftur málþóf hérna seinna ef það á að fara í sæstrenginn — að með því er ekki gengið gegn stjórnarskránni. Meira að segja þeir segja það.

Ég mun greiða atkvæði á móti málinu vegna þess að ég er bara svolítið „stickler“, með leyfi forseta, fyrir því að við séum hægt og rólega alltaf að færa vald út. Við þurfum að breyta stjórnarskránni þannig að það sé alveg skýrt að það þurfi aðkomu þjóðarinnar þegar um er að ræða framsal á ríkisvaldi. Það er það sem nýja stjórnarskráin segir. Það er það sem er verið að ræða í starfshópi Katrínar Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, það hvernig við framseljum ríkisvald. Þá þarf aðkomu þjóðarinnar í því og jafnframt ef það á síðan að breyta lögum, þó að það sé ekki heildarfullgilding, til að innleiða einhvers konar áform, veiðileyfi eða eitthvað sem hefur verið samþykkt varðandi framsal ríkisvalds. (Forseti hringir.) Þá getur þjóðin kallað það til sín. Ef þetta væri til staðar í dag væri ekki hægt að nota þriðja orkupakkann í þeim gríðarlega hræðsluáróðri sem hann hefur verið notaður í og kljúfa þjóðina svona. Þjóðin gæti tekið það til sín og það er það sem við þurfum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)