149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta hefur verið ákaflega umdeilt mál en umræðan sem af því hefur leitt hefur orðið til þess að það hefur skýrst mjög á síðustu misserum og ekki hvað síst í sumar. Nú þarf enginn að velkjast í vafa um hvaða áhrif innleiðing þriðja orkupakkans mun hafa því að Evrópusambandið hefur svarað því sjálft. Það gerir það reyndar með lýsingu á markmiðum pakkans. Það gerir það með framkvæmd hans, til að mynda á Kýpur. Það hefur gert það með því að hafna beiðni Norðmanna um undanþágur, t.d. varðandi sæstreng í eigin landgrunni. Og það hefur heldur betur gert það með nýlegum málaferlum, annars vegar gegn 12 ríkjum Evrópusambandsins fyrir að bjóða ekki út nýtingarrétt orku, virkjanir, og nú síðast með málaferlum gegn Belgíu þar sem menn höfðu gert sér hugmyndir um að stjórnmálamenn gætu gert nákvæmlega það sem mér heyrist flestir þeirra sem ætla að styðja pakkann í dag trúa eða a.m.k. segjast trúa (Forseti hringir.) að hægt sé að gera en Evrópusambandið er þegar búið að svara að er ekki hægt.