149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú er loksins komið að því að við erum að greiða atkvæði um þetta mál sem hefur fengið mikla umræðu. Það er mjög vel undirbúið vegna þess að það komu fram miklar áhyggjur frá almenningi í landinu. Þeim hefur öllum verið svarað en ég vonast til þess að umræðan haldi áfram.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við ræðum mál þótt þau tengist ekki þriðja orkupakkanum en sem komu inn í þá umræðu, hvort sem það eru orkumálin eða hagsmunagæsla okkar á alþjóðavettvangi og í þessu tilfelli þegar kemur að Evrópska efnahagssvæðinu. Sem betur fer höfum við núna í nokkurn tíma, frá því að við komum að þessum málum, unnið einarðlega að því að styrkja hagsmunagæslu okkar Íslendinga. Það er afskaplega mikilvægt.

Í stuttu máli, það þarf ekki að fara í efnisatriðin, er þetta mál fullrætt en önnur mál þeim tengd eru það auðvitað ekki og afskaplega mikilvægt að við ræðum þau áfram.

Ég greiði atkvæði með þessu máli.