149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Enn hefur því ekki verið svarað hvers vegna við ættum að innleiða þennan þriðja orkupakka, hvernig það gagnist Íslandi. Það hafa reyndar verið notuð innflutt rök um neytendavernd sem þegar þau eru sett í íslenskar aðstæður snúast upp í andhverfu sína og snúast um markaðsvæðingu orkunnar. Enn hefur því ekki verið svarað hvers vegna megi ekki nýta ákvæði sem er skrifað inn í EES-samninginn til að leita ásættanlegrar niðurstöðu. Að vísu hafa bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagt mjög skýrt í umræðunni að slíkt ákvæði sé virkt, það væri hægt að nýta og slíkt myndi ekki setja EES-samstarfið í hættu. Með því að fara þá leið og í rauninni breyta eðli EES-samningsins í einhvers konar samning sem sé ekki milli jafn rétthárra ríkja heldur feli í sér boðvald Evrópusambandsins yfir okkur er verið að veikja samninginn.

Þetta mál mun reynast stórskaðlegt íslenskum hagsmunum og ég segi nei.