149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þau stjórnskipulegu álitamál sem hafa verið til umræðu vegna þessarar þingsályktunartillögu hafa fengið rækilega skoðun. Ég tel algjörlega óumdeilt orðið að það eru engin stjórnskipuleg álitamál uppi sem eru óafgreidd af þinginu. Um efnisatriði málsins hefur þvælst inn í almenna umræðu margt sem átti heima og var reyndar í umræðunni um fyrsta orkupakkann. Margt af því átti sömuleiðis við um annan orkupakkann. Við heyrðum það hér á síðustu ræðu sem var flutt úr þessum ræðustól að menn tala um markaðsvæðingu orkunnar. Það eru allt atriði sem áttu heima í umræðunni um fyrsta og annan orkupakkann. Við erum ekki að greiða atkvæði um fyrsta og annan orkupakkann. Við erum að greiða atkvæði um þriðja orkupakkann þar sem ekki er verið að taka ákvörðun um markaðsvæðingu orkunnar heldur önnur tæknileg útfærsluatriði sem fylgja því að vera þátttakendur í EES-samstarfinu.

Í framhaldi af framgangi þessa máls finnst mér við þurfa að huga að því með hvaða hætti við framkvæmum í framtíðinni reglur (Forseti hringir.) um þinglega meðferð EES-mála. Það hefur greinilega ekki tekist í þessu máli að klára þá efnisumræðu sem átti heima á grundvelli þeirra reglna (Forseti hringir.) og allt of mikið af henni á sér stað núna við afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara.