149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég spyr margra spurninga. Ég spyr sjálfan mig margra spurninga. Þegar ég heyri áhyggjur fólks af þessu máli spyr ég líka margra spurninga. Ég les mjög mikið þegar að því kemur til að fræðast um málið og svara þeim spurningum. Ég skil þær áhyggjur sem fólk hefur haft af þessu máli því að þær áhyggjur hafa legið í loftinu í áratugi. En þegar kemur að efnisatriðum málsins sé ég ekki hvernig þær áhyggjur endurspeglast í efni þessa máls, hvernig hægt væri að kenna þriðja orkupakkanum um allt sem gæti gerst á öðrum vettvangi, með ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem tengist ekki þriðja orkupakkanum. Ég er búinn að leita og leita og þær fullyrðingar sem hafa komið fram um málið eru yfirleitt ekki í efnisinnihaldi þriðja orkupakkans, þær eru annars staðar. Þær liggja í vantrausti á íslensk stjórnmál, þar liggur vandamálið. Þær liggja í efnisinnihaldi íslenskrar stjórnarskrár (Forseti hringir.) og þeim lausnum sem þar eru við þeim vandamálum í nýrri stjórnarskrá.

Þess vegna segi ég já við þriðja orkupakkanum, af því að efnisinnihaldið endurspeglar ekki þær áhyggjur sem fólk hefur haft af þessu máli.