149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þriðji orkupakkinn snýst ekki um framsal á þjóðarauðlind okkar. Hann snýst ekki um skerðingu á fullveldi Íslands. Hann snýst um neytendavernd. Hann snýst um umhverfisvernd. Við í Viðreisn höfum sterka skoðun á því að það sé íslenskri þjóð til heilla að ganga í Evrópusambandið. Þangað til það verður munum við með ráðum og dáð verja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gegn tilhæfulausum atlögum á borð við þá sem hefur átt sér stað í tengslum við innleiðingu þessa máls vegna þess að það er ekkert annað sem stendur eftir þegar komið er til botns í því máli. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er það næstbesta í stöðunni. „Heldur þann versta en þann næstbesta“, sagði Snæfríður Íslandssól við föður sinn um val á lífsförunaut. Það var hennar val. Við sem hér erum þurfum að nálgast málið öðruvísi en hún nálgaðist einkamál sín. Við sem hér erum þurfum að hafa hagsmuni lands og þjóðar í huga.

Ég segi já.