149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Svo landsmenn sem heima sitja og hafa áhyggjur skilji hvað við erum að greiða atkvæði um vil ég segja að það er búið að samþykkja þriðja orkupakkann. Það er búið að samþykkja frumvarp um sjálfstæði Orkustofnunar sem þurfti að gera til þess að orkupakkinn væri uppfylltur. Núna erum við að greiða atkvæði um fyrirvarana, þ.e. að það þurfi samþykki Alþingis ef á að leggja sæstreng. Það er fyrirvarinn sem við greiðum atkvæði um núna. Það sem það þýðir í praktískum forsendum er það að ef ríkisstjórn á einhverjum tíma ætlar að fara að leggja sæstreng, sterkir stjórnmálamenn sem vilja vaða yfir þjóðina, getur hún það ekki án aðkomu Alþingis. Alþingi getur haft uppi varnir, Alþingi getur farið í málþóf. Rétt eins og málið um þriðja orkupakkann er þingsályktunartillaga sem var hægt að beita málþófi um verður það með þingsályktunartillögu Alþingis ef menn ætla að fara af stað með sæstreng. Þeir sem greiða atkvæði gegn þessu greiða atkvæði gegn því að settar séu upp varnir á Alþingi til þess að hægt verði að stöðva það ef leggja á sæstreng í framtíðinni. Það er nákvæmlega það sem það þýðir praktískt. (Forseti hringir.)

Svo er hv. þm Inga Sæland með frábæra tillögu um að bæta því við að það sé ekki Alþingi heldur þjóðin, að varnirnar séu þar. (Gripið fram í.)Ég er ekki að segja að það eigi að taka Alþingi, ég er að segja að verið sé að búa til varnir og ef þeir sem segjast vera í vörn í þessu máli (Forseti hringir.) greiða atkvæði gegn vörnunum þá er það mjög holur hljómur.