149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Það er búið að samþykkja þriðja orkupakkann. Það sem er í boði núna er að auka varnir. Ef það á að leggja sæstreng eru auknar varnir settar inn. Þá geta menn sagt að þetta séu blekkingar o.s.frv. Þegar tillagan var lögð fram var það kannski gert til að blekkja, mögulega, en nú eru Miðflokkurinn og allir aðrir flokkar á Alþingi búnir að semja frá sér, þeir sömdu frá sér í vor, réttinn til að stunda málþóf, sömdu hann frá sér, skrifuðu undir samkvæmt þingsköpum að þeir heimiluðu að umræðunni myndi ljúka á umsömdum tíma, tveir dagar og svo atkvæðagreiðsla núna. Það er það sem var skrifað undir, það er undirskrift formanns flokks Miðflokksins þar undir. Þá eru menn samkvæmt lögum á Alþingi búnir að skrifa undir að þeir megi ekki fara í málþóf og forsetinn kominn með það vald.

Hérna er verið að bæta við málþófsvaldi ef það á að leggja sæstreng seinna í framtíðinni. Það er það sem við erum að greiða atkvæði um. Menn geta sagt: Þetta var blekkingaleikur þegar þetta var sett fram. En nú er orkupakkinn samþykktur og þetta er eina vörnin sem situr þarna eftir. Það er ekki blekkingaleikur. Það er praktískur raunveruleiki (Forseti hringir.) þannig að ríkisstjórn í framtíðinni gæti ekki farið af stað heldur væri hægt að stöðva það á Alþingi. Það er holur hljómur, það er virkilega holur hljómur ef menn ætla ekki að greiða atkvæði með því til að geta sagt einhvern veginn: Við greiddum atkvæði gegn öllum orkupakkamálunum. Nei, þetta eru góð atriði sem voru sett inn, jafnvel þó að það hafi verið sett inn sem blekkingaleikur er það orðið staðreynd núna.