149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vildi koma örstutt inn í málið áður en atkvæðagreiðsla fer fram um þessa tillögu og breytingartillögu hv. þm. Ingu Sæland. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég get ekki fallist á breytingartillögu þar sem gert er ráð fyrir því að mál gangi beint til þjóðaratkvæðagreiðslu án aðkomu Alþingis eins og skilja má texta tillögunnar. Ég held þvert á móti að það sé mikilvægt að ef til ákvörðunartöku kemur á þessu sviði fái málið vandaða og ítarlega meðferð á Alþingi. Ég bendi á að þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér er sett inn í þingsályktunartillögu hefur enga stjórnskipulega stöðu þar sem í stjórnskipun okkar er gert ráð fyrir tilteknum þjóðaratkvæðagreiðslum sem eru bindandi. Það er auðvitað heimilt á hverjum tíma, þess vegna þegar þetta kemur upp, að efna (Forseti hringir.) til þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt sérstakri ákvörðun Alþingis. Hins vegar er það auðvitað aðeins ráðgefandi en ekki bindandi og eins og ég segi er, eins og tillagan liggur hér fyrir, gert ráð fyrir því að það verði án aðkomu Alþingis sem ég sætti mig ekki við.