149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér hafa margir stigið á stokk í dag og einn helsti sérfræðingur þingsins í því hvað er merkilegt og hvað ómerkilegt, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, hefur talað mikið. Ef það er mat hv. þingmanns að gæði mála ráðist af styrk þeirra eða blaðsíðufjölda held ég að Pírata ættu nú bara að hvíla sig, vera ekkert að leggja fram þingmál. Mig langar hins vegar, vegna orða hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, að minna á að fyrir liggur, enda nokkuð gamalt, lögfræðiálit um að þingsályktanir haldi ekki milli ríkisstjórna við stjórnarskipti nema sú ríkisstjórn sem tekur við vilji það. Næsta ríkisstjórn sem tekur við getur ákveðið að þessi þingsályktunartillaga eigi ekkert við, hún sé ekki bundin af henni. Þar með eru engar varnir, eins og þingmaðurinn er að tala um, ef það er það sem verið er að vísa til, (Gripið fram í.) og þar af leiðandi er ekki hægt að samþykkja þetta. Þó að þetta væru bara ein rökin.