149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég treysti þjóðinni fullkomlega til að taka ákvarðanir um mál sem hér eru afgreidd. Ég treysti líka þjóðinni fullkomlega til að lýsa áhuga sínum á þjóðaratkvæðagreiðslum þegar svo ber undir. Það er ágætisleiðsögn í nýrri stjórnarskrá, 10% kjósenda, sem hefur einfaldlega ekki verið uppfyllt hér. Um leið og það er uppfyllt skal ég styðja svona tillögur og leggja eina slíka fram, ég er reyndar með þær tilbúnar í tölvunni minni ef út í það er farið. Beint lýðræði felst ekki í því að stjórnmálamenn náðarsamlegast sendi sín persónulegu hugðarefni eða það sem þeim er annt um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki valdefling kjósenda, það er valdefling stjórnmálamanna. Þess vegna finnst mér það vera mjög mikilvægt að ákallið komi frá kjósendum. Berist það ákall styð ég málið. Berist það ekki sé ég einfaldlega ekki ástæðu til þess. Það er ekki flóknara en það.

Eins og ég nefndi áðan þá er ég ekki á móti málinu og ef það hæfist undirskriftasöfnun vegna tillögu sem væri hér til umfjöllunar um að leggja sæstreng myndi ég sennilega skrifa undir það sjálfur. En þá myndi ég gera það sem óbreyttur borgari en ekki sem stjórnmálamaður sem vill sjálfur víla og díla um það að hvaða marki þjóðin ræður. Það er þjóðin sjálf sem á að ákveða hversu miklu hún ræður yfir hverju máli. Hún er fullfær um að sýna þann stuðning við þjóðaratkvæðagreiðslur þegar hún svo vill eins og hún hefur margsinnis sýnt fram á.