149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Best væri ef þjóðin gæti kallað málið til sín í þjóðaratkvæðagreiðslu ef að því kemur að leggja eigi sæstreng hér. En þar sem við erum því miður ekki búin að samþykkja nýja stjórnarskrá og sá valmöguleiki er ekki til staðar þá styð ég tillöguna um að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri betra að fara aðra leið að því en mér finnst, einkum í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur gert lítið sem ekkert að mínu mati í að efla traust á Alþingi og stjórnmálum og okkur stjórnmálafólki, sérstaklega mikilvægt að þetta verði samþykkt, að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við ættum að vera búin að gera miklu, miklu meira til þess að efla traust á Alþingi þannig að þetta gríðarlega vantraust væri ekki til staðar. Það er þess vegna sem fólk treystir okkur hreinlega ekki fyrir þessari ákvörðun. Þá ber okkur að leyfa þjóðinni að koma að þeirri ákvörðunartöku.