149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[12:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tillögu um breytingu á stefnu stjórnvalda varðandi uppbyggingu flutningskerfis raforku. Mér finnst margir hér inni tala eins og við séum aðilar að sameiginlegum raforkumarkaði Evrópu sem við erum ekki. Það er svolítið stórt mál. Með þessari tillögu er verið að undirstrika að ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs liggur alltaf hjá Alþingi. Við erum og verðum fullvalda þjóð sem tökum okkar ákvarðanir út frá okkar eigin hagsmunum og gerum það hér eftir sem hingað til.

Með þessari tillögu er verið að geirnegla aðkomu þjóðarinnar og stjórnvalda að uppbyggingu flutningskerfis raforku. Við Vinstri græn höfum verið andvíg og erum andvíg lagningu sæstrengs og þess vegna styð ég tillögu um að árétta að Alþingi hafi alltaf lokaákvörðunarvald ef einhverjum dytti í hug að leggja hingað sæstreng sem ég held að verði ekki í nánustu framtíð.

Ég segi já.