149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög.

792. mál
[12:19]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með frumvarpinu sem við erum að taka til atkvæðagreiðslu hér er lagt til að við raforkulög verði bætt nýju ákvæði um að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Það er þingsályktunartillagan sem við vorum að samþykkja rétt áðan.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja að ef ákvörðun um að tengja raforkukerfi landsins við raforkukerfi annarra landa verður tekin skuli framkvæmdin vera í samræmi við stefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Er því verið að breyta raforkulögum til samræmis við tillögu til breytingar á þingsályktunartillögu sem var lögð fram samhliða frumvarpi þessu og við vorum að samþykkja. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að verið er að breyta lögum til samræmis við fyrrnefnda breytingu á þingsályktun þar sem lagt er til að kveðið verði á um að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema að undangengnu samþykki Alþingis. Þá fylgir með, sem fylgirit með þessu plaggi meiri hlutans, áliti, fyrirvarinn sem lengi var leitað hér í vor, sem lá alltaf fyrir í gögnum þingsins en var gert mikið havarí út af í tengslum við málið.