149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög.

792. mál
[12:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er frumvarp sem festir í sessi það sem við samþykktum í þingsályktun áðan, að ef það á að leggja sæstreng verði það með aðkomu Alþingis. Við vitum hvernig sú aðkoma þarf að vera. Það er þingsályktun og rétt eins og um þriðja orkupakkann sem var þingsályktun er hægt að beita málþófi. Það segir líka að það verði að vera ítarleg rannsókn á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum. Þingmenn vita allir að það sem þetta býr til er tækifæri fyrir minni hluta á Alþingi sem vill ekki sæstreng til að geta stundað málþóf í framtíðinni til að stöðva hann.

Þá segja menn: Já, en þetta er ekki nóg. Nei, þetta er kannski ekki nóg en það þýðir að þessi réttur virkjast þá. Með því að samþykkja þetta frumvarp og gera að lögum virkjast sá réttur. Þetta er með öllu óskiljanlegt. Geta Miðflokksmenn í alvörunni ekki sagt: Já, þetta er alla vega gott þó að það sé ekki nóg. Það býr alla vega til þetta smávægilega atriði þarna, smávægilegar varnir síðar. Er það ómögulegt? Má ekki benda á neitt sem er gott? Verður alltaf að vera á móti öllu?