149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög.

792. mál
[12:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þingmönnum á að þetta mál er ekki hluti af þriðja orkupakkanum (Gripið fram í: Nákvæmlega.) og ekki heldur málið sem við samþykktum áðan. Fyrstu tvö málin eru það. Fyrsta málið var þingsályktunartillaga um að samþykkja þriðja orkupakkann. Annað málið var frumvarp um innleiðingu á þeim orkupakka í íslensk lög. Þau tvö mál, það sem við erum að greiða atkvæði um núna og það sem var áðan, eru eitthvað sem Íslendingar ákveða að setja upp á sitt eindæmi og að eigin frumkvæði og af ástæðum sem einungis komu fram á Íslandi, hvergi í ESB, til þess að koma til móts við áhyggjur sem fólk hafði af orkupakka þrjú. Atkvæði gegn því máli og málinu sem var hér á undan er ekki atkvæði gegn orkupakka þrjú né neinu sem í honum kemur fram, ekki staf, ekki neinu. Við erum aðeins að spyrja að því hvort við ætlum að láta Alþingi ákveða það hvort hér verði lagður sæstrengur eða ekki. Það er sjálfstæð ákvörðun okkar. Ég vil bara halda því til haga ef fólk heldur að það sé að greiða atkvæði gegn þriðja orkupakkanum með því að greiða atkvæði gegn þessu máli. Það myndi einungis sýna enn þá betur fram á hvað skilningsleysið virðist vera algjört.