149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

raforkulög.

792. mál
[12:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Þetta er síðasti séns. Það er enn þá hægt að greiða atkvæði. Það er enn þá hægt að snúa atkvæði sínu. Þetta er síðasti séns til að reisa upp varnir síðar í þessu ferli ef þjóðin er ekki sjálf komin með réttinn til að kalla mál til sín, til að kalla frumvörp frá Alþingi, sem er í boði núna á þessu kjörtímabili og Miðflokkurinn getur tekið þátt í því í starfshópi Katrínar Jakobsdóttur um breytingu á stjórnarskránni, að 10% þjóðarinnar geti kallað mál til sín. Ef það verður ekki komið er verið að reisa varnir af því að Miðflokkurinn hefur skrifað frá sér þann rétt að stunda málþóf í þessu, gerði það í vor, fékk þennan stubb núna, tvo daga plús einn. Það er undirritaður samningur um það, hv. þingmaður sem brosir yfir því, og þar er það bundið samkvæmt þingsköpum, samkvæmt lögum þingsins og leikreglum, að Miðflokkurinn — og það er sagt þingflokkurinn — afsali sér rétti til að stunda málþóf áfram í málinu. En það er verið að reisa upp varnir fyrr í ferlinu. Ef það á að fara í að búa til sæstreng eða tengja Ísland með sæstreng verður Alþingi að koma að því. Verið er að reisa upp þær varnir að þá væri hægt að stunda málþóf. Ef menn væru gríðarlega ósáttir á þeim tíma (Forseti hringir.) gæti þjóðin sagt: Við viljum þá úr EES-samstarfinu. Það er verið að reisa varnir og Miðflokkurinn vill ekki taka þátt í því að gera það. Hvers vegna ekki? (Forseti hringir.) Þetta er ekki málefnalegt og ég get ekki séð neitt út úr því annað en að það á frekar að stunda stjórnmál en að halda uppi vörnum fyrir landsmenn (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.