150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Treystið eigi tignarmönnum, segir í Davíðssálmum. Þessi orð eiga vel við nú þegar orkupakki þrjú hefur verið samþykktur í andstöðu við þjóðina. Formenn stjórnarflokkanna hunsuðu vilja meiri hluta flokksmanna sinna. Þeir munu uppskera eins og þeir hafa sáð og nú þegar sjást þess merki. Í bókinni Vængjasláttur í þakrennum eftir Einar Má Guðmundsson birtist okkur myndmál um kerfið eða ríkisbáknið sem tekur burt gleðina. Þetta sjáum við í skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna. Gleðin sem felst í atvinnuþátttöku eldra fólks og öryrkja er tekin burt. Virðing fyrir eldra fólki, kynslóðinni sem kom okkur inn í nútímann og við eigum svo margt að þakka, fer stöðugt þverrandi. Meira að segja í Sjálfstæðisflokknum er eldra fólk orðið annars flokks þar sem talað er niður til þess. Miðflokkurinn hefur frá stofnun barist fyrir betri kjörum eldri borgara og mun halda því áfram.

Tvær mikilvægar heilbrigðisstéttir fagna 100 ára afmæli á þessu ári, ljósmæður og hjúkrunarfræðingar. Það tók ljósmæður fjögur ár að fá greidd laun fyrir vinnu í verkfalli. Kjarasamningar þessara stétta eru nú lausir og vonandi verður viðmót ríkisins betra í þeirra garð. Viðvarandi skortur hjúkrunarfræðinga er alvarlegt vandamál sem verður að leysa. Það gerist ekki með hroka samninganefndar ríkisins. Góð heilbrigðisþjónusta byggist á mannauði, ekki steinsteypu á röngum stað.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi verið áhugalaus um landbúnaðinn. Stjórnvöld eiga að gæta hagsmuna landbúnaðarins rétt eins og þau gæta hagsmuna sjávarútvegs. Allar þjóðir styðja við sinn landbúnað. Hæstv. landbúnaðarráðherra minntist ekki einu orði á bændur í sinni ræðu eða kjör þeirra og heldur ekki á þriggja ára gamla lambahryggi frá Nýja-Sjálandi.

Fjárlagafrumvarpið boðar nýtt skattþrep á lægstu tekjur. Miðflokkurinn fagnar öllum skattalækkunum en ljóst er að skattalækkun á lægstu laun er gerð á kostnað millistéttarinnar.

Ríkisstjórnin heldur áfram að hækka kolefnisgjaldið sem þýðir hækkun á bensíni og dísilolíu. Umhverfisráðuneytið hefur staðfest að ekkert er vitað hvort kolefnisgjaldið skili yfir höfuð einhverjum árangri.

Herra forseti. Ágætu landsmenn. Bandaríkjaforseti vakti athygli þegar hann sagðist vilja kaupa Grænland. Í Danmörku urðu menn hneykslaðir og hér heima sömuleiðis. En hvað með þá staðreynd að einn erlendur auðmaður hefur keypt yfir 40 jarðir hér á landi? Hvað ef þessi auðmaður væri Donald Trump? Myndi ríkisstjórnin þá taka við sér? Dugleysi ríkisstjórnarinnar við að taka á stórtækum jarðakaupum útlendinga er með eindæmum.

Ég vil nota tækifærið að lokum og þakka Orkunni okkar fyrir málefnalega baráttu gegn orkupakka þrjú. Baráttunni er ekki lokið. Miðflokkurinn mun aldrei una því að embættismenn í Brussel ráði för í orkumálum Íslendinga. Aldrei.