150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Kæra þjóð. Hafið þið heyrt um kökuna? Þið vitið, hagkökuna sem þarf alltaf að stækka, sama hvað, sömu kökuna og er skreytt rétt fyrir kosningar. Ég hef slæmar fréttir að færa af þessari köku. Hún er mygluð og ný skreyting breytir engu þar um.

Við þurfum eitthvað nýtt því að flest fáum við lítið af þessari köku hvort sem er. Við þurfum hlaðborð, eitthvað fyrir alla, stóra og smáa, eitthvað nýtt því að hagstjórn sem snýst um það eitt að stækka og skipta landsframleiðsluköku virkar ekki. Skiptingin er og hefur alltaf verið ósanngjörn. Kakan er lygi.

Sérhagsmunir ráða og skammta öllum friðþægingarmola á meðan hinir ríku gúffa í sig skreytingunni og verða enn ríkari með hjálp skattaskjóla. Afleiðingarnar eru spilling, hagsmunaárekstrar og ábyrgðarleysi. Við búum í ábyrgðarlausu samfélagi þar sem ráðherrar geta stungið skýrslum undir stól fyrir kosningar, skipað dómara eftir geðþótta og selt ríkiseignir til vina og vandamanna án þess að nokkur axli ábyrgð og standi reikningsskil af verkum sínum.

Kæra þjóð. Framtíðin kemur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hún raungerist betur ef við þurfum ekki alltaf að glíma við drauga fortíðar sem draga okkur sífellt niður í svað spillingar, sérhagsmuna og stöðnunar til að bjarga eigin afturenda frá því að axla ábyrgð.

Við Píratar krefjumst þess að fólk rökstyðji mál sitt og láti sannleikann skipta máli. Við opnum launa- og kostnaðargreiðslur þingmanna fyrir aðhaldi fjölmiðla og almennings. Við berjumst fyrir nýrri stjórnarskrá og þeim frábæru réttindum sem hún færir okkur. Við Píratar gerum kröfur um fagleg vinnubrögð, opið aðgengi að upplýsingum og aðkomu allra sem málið varðar.

Píratar hafa lengi talað fyrir nýjum lausnum í efnahagsmálum, mikilvægi þess að horfa víðar en að stækka kökuna. Nýlega fékk þessi nýja hugsun nafnið velsældarhagkerfi. Velsældarhagkerfið snýst um að gera betur á fjölmörgum sviðum samfélagsins með gagnamiðaðri stefnumörkun. Píratalegra gerist það ekki.

Píratar horfa til framtíðar þar sem hægri og vinstri skipta ekki máli og ekki heldur kapítalismi eða sósíalismi. Framtíðin er í velsæld og frelsi, ekki frelsi sérhagsmuna og einokunar heldur frelsi sem við finnum í vernd gegn misbeitingu valds, frelsis sem við finnum með því að henda kökunni sem sumir fá en aðrir ekki, frelsi sem við finnum í trausti og öryggi því að réttindi okkar eru í 1. sæti, t.d. rétturinn að geta stigið á bremsuna ef stjórnvöld eru að keyra út af, frelsið frá spillingu og kjördæmapoti, frelsið fyrir þig en ekki bestu vini aðal.

Við Píratar leggjum til framtíðarsýn um ábyrgð í stjórnmálum og betra líf, frelsi og réttindi fyrir alla. Við leggjum áherslu á að ný og betri stjórnarskrá frá þjóðinni komist í gegnum þingið. Við bjóðum upp á styttri vinnuviku og velsældarþjóðfélag.

Kæra þjóð. Það er auðvelt að stunda stjórnmál eins og venjulega. Það er auðvelt að horfa í hina áttina eða í gegnum fingur sér. Það er auðvelt að ala á ótta og vantrausti en það þarf hins vegar kjark til að gera breytingar og standa uppi í hárinu á valdhöfum. Það þarf þrautseigju til að draga fram svör þegar enginn vill svara. Það þarf þor til að segja: Rökstuddur grunur. Það þarf hugrekki til þess að storka meðvirkni, ögra valdinu og segja: Fokk ofbeldi.

Við Píratar þorum að berjast við sérhagsmunaöflin og við bjóðum líka upp á framtíðarsýn um velsæld fyrir okkur öll. Betra gerist það ekki.