150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekki hér að ræða tekjuskattsfrumvarpið, við erum að ræða fjárlagafrumvarpið. Það er út af fyrir sig rétt sem hv. þingmaður bendir á, að í undirliggjandi forsendum fjármálaáætlunar, þegar metið var umfang og kostnaður við skattalækkanir, hafði verið gert ráð fyrir því að hluti fjármögnunar byggði á því að dregið yrði úr möguleikum til samnýtingar skattþrepa. Það er hins vegar ekki verið að leggja það til hér, það er annað frumvarp. Þetta er fjárlagafrumvarpið, það fjallar um tekjur og gjöld, en í tekjuskattsfrumvarpinu er fjallað um samsköttun hjóna og slíka þætti, bara þannig að þessu sé komið skýrt til skila.

Hjón hafa haft heimild til að telja sameiginlega fram og samnýta t.d. persónuafslátt. Samsköttun hjóna hefur í almennu tali vísað sérstaklega til heimildarinnar til að samnýta persónuafsláttinn. Það hefur aldrei komið til tals að breyta því.

Síðan var fyrir nokkrum árum innleidd regla um samnýtingu skattþrepa. Það á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar við tókum upp þriðja skattþrepið. Í millitíðinni var milliþrepið afnumið og núna þegar við tökum upp nýtt lægsta skattþrep til að skila skattalækkuninni sérstaklega til tekjulágra og lægri millitekjuhópanna verður engin breyting gerð á lagareglunni um samnýtingu þrepa. Lagareglan er hins vegar þannig úr garði gerð að hún heimilar bara samnýtingu þrepa niður í næsta þrep fyrir neðan. Þegar til verður nýtt lægsta þrep mun það hafa áhrif á það hvernig framkvæmd samsköttunar milli þrepa fer fram en lagareglan er algjörlega óbreytt.

Ég vona að þetta sé nægilega skýrt. Mér fannst menn aðeins hlaupa á sig áður en (Forseti hringir.) sjálft frumvarpið sem um þetta fjallar var gert opinbert. Það er ekki verið að fella niður heimild, (Forseti hringir.) hvorki til samsköttunar hjóna né til samnýtingar á þrepum.