150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég verð að segja að þetta er afar óskýrt og það eru þversagnir þarna á milli, hvað varðar frumvarpið, áætlunina og svo þessa tilkynningu sem kemur frá ráðuneytinu. Þá verður náttúrlega að fá fram hvort þetta hefur ekki einhver áhrif á tekjutíundir. Ef hæstv. ráðherra segir að það verði engin breyting, er þá ekkert að marka það sem kemur fram í fjármálaáætlun?

Að öðru, ég vildi aðeins koma inn á kolefnisgjaldið. Nú á að hækka það og grænir skattar hækka þá um 1,5 milljarða. Við gerum ekki lítið úr því í Miðflokknum að það er mikilvægt að horfast í augu við loftslagsvána en við leggjum líka töluverða áherslu á að þessir skattar skili árangri. Það er bara sjálfsögð krafa skattgreiðenda í þessu landi að þeir viti að sértækir skattar eins og kolefnisgjald beri árangur. Nú er verið að hækka kolefnisgjaldið um 10%. Ég held að það sé 12–13 kr. á bensín- og dísillítra, ef það er rétt hjá mér. Það kemur til með að þýða hækkun á lítra af bensíni og dísilolíu.

Nú hefur umhverfisráðuneytið staðfest á fundi fjárlaganefndar að það er ekkert hægt að segja til um það hvaða árangri þessi skattheimta skilar, ekkert hægt að segja til um það. Er það ekki bara krafa, hæstv. fjármálaráðherra, að lögð sé fram einhvers konar skýrsla um það hvaða árangri þetta skilar yfir höfuð? Er það ekki í anda laganna um opinber fjármál að sértækir skattar skili árangri?

Ég held að það verði að fara ofan í saumana á þessu máli, hæstv. ráðherra, vegna þess að það er óeðlilegt að skattleggja almenning með þessum hætti (Forseti hringir.) þegar ekkert er vitað um árangurinn.