150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu eru raktir helstu óvissuþættir í efnahagsmálum og þar er dregið fram að meiri líkur en minni séu á því að horfur versni á árinu 2020 miðað við þá spá sem frumvarpið er byggt á. Það er ekki bara óvissa um innlendar stærðir, um ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar og atvinnutækifæri í niðursveiflu, heldur eru einnig blikur á lofti í viðskiptalífi stærri þjóða. Nefnt er sem dæmi viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína sem við urðum áþreifanlega vör við á dögunum þegar varaforseti Bandaríkjanna sótti okkur heim. Það viðskiptastríð eykur líkur á samdrætti í fjárfestingu og á vinnumarkaði í helstu viðskiptalöndum okkar. Við þetta bætist óvissa um hvernig útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verður háttað og áhrif á önnur lönd, m.a. Ísland.

Við þurfum að taka mið af þessu þegar ríkisfjármálin eru ákveðin. Því vekur það athygli og áhyggjur að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum tekjuöflunarleiðum. Til dæmis er ekki gerð krafa til þeirra sem allra best standa í samfélaginu og nutu uppsveiflunnar um að leggja meira til samfélagsins í gegnum skattkerfið í niðursveiflunni. Þvert á móti eru boðaðar breytingar á því hvernig skattstofn fyrir fjármagnstekjur er reiknaður sem ver fjármagnseigendur fyrir verðbólgu og er til lækkunar á skattinum.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að óskhyggjan sem mér sýnist birtast í frumvarpinu, um að allt fari á betri veg þó að útlit sé fyrir annað, sé í anda laga um opinber fjármál, hvernig brugðist verði við verri stöðu og hvort gripið verður til niðurskurðar í velferðarkerfinu frekar en að afla tekna ef næsta hagspá verður verri en sú síðasta.